Sjö-núll fyrir morgunvaktinni

Það var líf og fjör á morgunvaktinni eins og fram hefur komið, hér eru Guðrún Sigurjónsdóttir, Þorsteinn Stefánsson og Tryggvi Ársælsson að huga að fyrsta laxi morgunsins, en alls urðu þeir sjö fyrir hádegi.

Fregnir ofan úr Norðurárdal á þessu síðkveldi herma að enginn fiskur hafi náðst á land úr Norðurá á seinni vaktinni. Ekki kannski furðulegt að það hafi róast, rok, kuldi og sólfar réðu ríkjum og vatnsleysis verulegt. En morguninn var góður eins og fram hefur komið.

Sem sagt, 7-0 fyrir morgunvaktinni. Þó fylgdi sögu að menn hefðu tyllt í tvo eða þrjá, en ekki meira en það og í háfana fóru þeir ekki. Menn geta verið sáttir við þessa byrjun, en ljóst er þó að það verða að koma veðrabrigði bráðum. Nýr dagur á morgun og þá opna líka Þverá og Blanda, en í báðum hefur sést allnokkuð af laxi og talsvert hefur einni sést af laxi í Kjarrá.

Borið hefur við að sílamáfar nýti sér vatnsleysið til að sitja um laxa sem reyna að troða sér upp grynningar í Þverá. Að minnsta kosti einn lax hefur verið gerður upptækur hjá fiðruðum veiðiþjófum og mávagerið hefur þurft að mæta mikilli andúð og vopnuðum eftirlitsmönnum uppá síðkastið.

Vel er þekkt að sílamávar geri þetta, svartbakar líka fyrrum þegar þeir voru algengari. Þá var aðferðarfræðin að sitja fyrir löxum sem freistuðu þess að komast yfir grynningar, veitast þá að þeim, höggva og slá í þeirri von að laxarnir ærðust og strönduðu sjálfum sér. Frægt var atvik við Laxá í Kjós fyrir allnokkrum árum, er veiðimaður kom að Fossbreiðu að morgni dags og sá þá svartbak vera að baksa við að drepa lax sem hann hafði flæmt inn á grynningar á norðurbakkanum. Veiðimaður öslaði yfir ána og var laxinn nær dauða en lífi þegar hann skipti um hendur. Þetta var stórglæsilegur 17 punda hængur og ekki nóg með að þetta hafi verið eini laxinn sem „veiddist“ þessa morgunvakt, heldur var þetta stærsti lax sumarsins úr ánni það sumar.