Kristín Ingibjörg Gísladóttir að þreyta vænan lax í Hofsá. Mynd; Karen Þórólfsdóttir.

Nýjar reglur voru settar á veiðiskap í Selá í Vopnafirði á þessu nýliðna sumri, mörgum þótti þær umdeildar, en aðstandendur segja tilraunina hafa tekist með ágætum og næst sé stefnt að því að taka Hofsá með fyrir 2021.

Fallegur Hofsárlax. Mynd Karen Þórólfsdóttir.

Reglurnar voru fólgnar í því að sökktaumar voru bannaðir, sem og þyngdar flugur og túpur. Þá mátti aðeins landa fjórum löxum á vakt, átta yfir daginn og aðeins tveimur úr hverjum hyl. Þá var veiðidagurinn styttur um eina klukkustund í hvorn endann, alls tvær klukkustundir. Veiðin var með ágætum í sumar, líklega um 1260 laxar, en lokatölur eru ekki staðfestar. Í fyrraveiddust 1484 laxar, en þó að mikið af laxi hafi verið í ánni sagði Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs að þetta væri rökrétt útkoma því dálítið minna hafi gengið um teljarann í Selárfossi heldur en í fyrra. „En við gerðum okkur far um að fylgjast með veiði á milli vikna til að sjá hvaða áhrif þessi aðferðabreyting hefði. Niðurstaðan var sú að veiðin jafnaðist út yfir veiðitímabilið og á heildina litið var mikil ánægja með breytinguna. Komu þó margir hingað til veiða hugsandi sitt um þetta,“ sagði Gísli.

Breytingar eru oftast af því tagi að þær gleðja ekki alla og margir veiðimenn veiða kerfisbundið eftir sérviskum sem þeir hafa þróað með sér. Notkun sökktauma og þyngdra flugna hefur verið afar mikil í flestum íslenskum ám um árabil og margir tileinkað sér þann veiðiskap. „Með notkun á sökktaumum og þyngdum flugum, sérstaklega tommulöngum túpum, sem jaðra við spónveiði, þá er áreitið á einstaka veiðistaði oft og tíðum fáránlegt og við vildum með þessu breyta því. Teljum við að fyrstu merki bendi til þess að það hafi tekist,“ sagði Gísli.

Þá bætti hann við að Veiðifélag Hofsár hefði sýnt því áhuga að gera breytingar í Hofsá fyrir 2021. Ekki ætti þó að ganga alveg eins langt og í Selá, því sökklínur og stórar túpur yrðu bannaðar í Hofsá, ekki þyngdar flugur, og stytting veiðidags yrði ein klukkustund en ekki tvær eins og í Selá. Þá verður 5 laxa kvóti í Hofsá og tveggja laxa takmark úr hverjum hyl verður ekki sett á í Hofsá. Þá væri í pípunum að byggja nýtt veiðihús við Hofsá, en það væri á byrjunarreit og aðeins í umræðunni eins og sakir stæðu.