Mjög sérstakt sumar lullar áfram

Kristín Ingibjörg Gísladóttir með glæsilega hrygnu úr Hofsá í vikunni.

Laxasumarið er mjög sérstak og raunar engin leið að ráða í hvernig þetta fer á endanum. Kalt áferði í vor virðist hafa seinkað göngum og svo virðast göngur vera að teygja sig yfir lengra tímabil, ekki risagusur sem síðan tekur fyrir fljótlega og lítið bætist við. Þá er ljóst að „tveggja ára“ laxinn er liðfár í ár, en það kemur engum á óvart.

Laxveiðimenn mun að sumarið 2019 var ömurlegt sumar, en í fyrra var það stórum skárra þó það næði engum hæðum. Ef eitthvað ætti að ráða í stöðuna nú þá mætti ætla að þetta gæti orðið svipað nú og í fyrra. Margar ár eru komnar á þann stað að þaær geti náð tölu síðasta árs og jafnvel gert heldur betur. Má þá nefna ár eins og t.d. Norðurá.

Á meðan þokkalega líflegt er í ám í Árnessýslu er ekki sömu sögu að segja í Rangárþingi. Eystri var að vísu með viku upp á 173 en stakir dagar voru margir hverjir að gefa svoleiðis veiði. Lítið fer fyrir slíkum uppgripum og bestu daga að gefa þeta 20-30 laxa. En það er alltaf ný fiskur að koma þannig að menn eru á tánum og setja í laxa. Það getur ekki alltaf verið mok. Sama gildir um Ytri Rangá, hún stóð Eystri langt að baki í fyrra og er með 384 laxa nú. Þær systurnar eru ekki að ná sér á flug miðað við fyrri frægðardaga. En það er fráleitt leiðinlegt á bökkum þeirra og hver veiðisagan af annarri verður að veruleika.

Valgerður Árnadóttir með fallegan lax úr Ásgarði í Soginu í dag.

Norðausturhornið verður að skoðast í samhengi við aðstæður framan af sumri. Mikill snjór, mikill hiti og mikil bráð. Þær voru erfiðar, aðstæðurnar en hafa farið batnandi og þó að heildarveiði sé nú eitthvað minni en í fyrra, þá eru göngur góðar og veiðin alveg í lagi. Jökla var enn seinni í gang, var alger hafsjór lengi vel, en um leið og sjatnaði kom í ljós að lax var að ganga og eins og í Vopnafirði var lax búinn að dreifa sér víða útaf kjörhita árvatnsins. Jökla var komin í 145 laxa í gær sem er magnað miðað við hversu ferlegar aðstæður voru lengi framan af.

Sunnar á Austfjörðunum lítur ekki jafnvel út með Breiðdalsá sem hefur verið í lægð síðustu ár. Þangað til í vikunni höfðu örfáir laxar veiðst, að vísu ekki mikið stundað. Nú verður farið að stunda ána af meira kappi og þá kemur kannski í ljós að staðan er ekki svo slæm, en það kemur í ljós.

Um þetta er svo sem ekki meira að segja, ef lesendur kíkja á angling.is sjá þeir að tölurnar í dag eru í flestum þess eðlis að þetta sumar gæti orðið á pari við síðasta sumar, jafnvel betra ef að lax heldur áfram að ganga jafnt og þétt. Rétt að kíkja þangað, við höfum sleppt því að þylja upp tölurnar núna, vert þó að geta að Norðurá var með 184 laxa viku og Þverá/Kjarrá 167 laxa viku. Það er engin ördeyða þó að það sé ekki mok heldur þegar athugað er að við erum stödd á topptíma sumarsins.