Á nýju ári (þessu) verður Sportveiðiblaðið fertugt!

Kápumynd blaðsins, Hilmir Snær á furðu fallegu hrossi.

Stuttu fyrir jól kom út nýjasta tölublað Sportveiðiblaðsins. Glæsilegt blað að vanda og kannski engin frétt í því í sjálfu sér. Það hefur verið vaninn hjá umsjónarmönnum blaðsins. Stóra fréttin er kannski öðru fremur sú, að þessu nýja ári hefur þetta merka blað komið út í fjörtíu ár samfleytt.

Er það meira afrek en margan grunar því á öllu þessa langa skeiði hefur umhverfi prentaðrar útgáfu verið allt annað en auðvelt. Stundum raunar algert svartnætti. En þeir sem þekkja Bender vita að hann gefst aldrei upp.
Nýja blaðið er fjölbreytt og flott. Þar eru stjörnuviðtölin á sínum stað, auk þess sem birt er úr öllum þeim bókum sem komu út um jólin og höfðuðu til veiðimanna. Stjörnuviðtölin að þessu sinni eru annars vegar við Hilmi Snæ Guðnason sem þekktastur er sem leikari, en hefur veitt á stöng og stundað leiðsögn við Kjarrá og Þverá um árabil, og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri. Þá er í blaðinu gnótt af öðru efni, m.a. athyglisvert myndskreytt innlit í glæsihús dr.Sturlu Friðrikssonar á brún Laxfoss í Norðurá og myndskreytt grein um haförn á laxveiðum við Krossá í Bitrufirði á Ströndum. Fleira mætti nefna, en lesendur þurfa bara að blaða sjálfir.