Fljótaá er komin á gott ról eftir hitabylgjuleysingarnar

Smálaxinn í Fljótaá er stór og fallegur. Mynd Vivvi.

Fljótaá í Fljótum er kannski dæmigerð fyrir árnar á Norðurlandi, hvernig þær verða fyrir barðinu á árferðinu, kuldum, þurrkum og flóðum, sem geta alveg eins verið vegna hita, eins og í sumar. Vigfús Orrason heldur utan um Fljótaá, sem er ekki síður þekkt fyrir sjóbleikju en lax…..sjáum hvað hann hefur að segja:

Þessi slapp vel, fær að klára verkefnið. Mynd Vivvi.

„Fljótaá var skítköld í júní enda minnti veðrið þá frekar á apríl. Bleikjan var farin að ganga upp í Miklavatn en fór ekki upp í á nema að mjög litlu leyti. Við vorum samt eitthvað að tína upp af bleikju þar til hitabylgjan skall á og gerði ána óveiðandi á stuttum tíma. Menn álpuðust reyndar í nokkar bleikjur í kakóinu fyrir eitthvað sambland af þrjósku og slembilukku og settu meira að segja í nokkra laxa sem sluppu.

Þegar áin fór að hreinsa sig og hlýna fór að veiðast. Bleikja fór að ganga upp úr Miklavatni og beint úr sjó og fyrsti laxinn kom á land 9. júlí og þá komu fjórir. Á hádegi 18. júlí var svo skráður 31 lax og um 550 silungar.

Áin er nú komin í fínt form þótt hún sé enn bólgin og bæði lax og bleikja að ganga. Mest er það smálax en hann er stórglæsilegur, mest í kringum 65 cm og vel haldinn. Þessa vikuna er ástundun í ánni í léttari kantinum en ég spái því að þeir sem sinna muni veiðinni á næstunni eigi eftir að eiga góða daga.“