Zeldan minnir á sig og vekur gamlar minningar um aðra ofurflugu

Zeldur af ýmsum stærðum og gerðum

Það er ekki ýkja mörg ár síðan við greindum frá ofurflugunni Zeldu. Hún hafði verið til í all mörg ár í vörslu höfundarins, Kjartans Antonssonar og nokkurra vildarvina, en svo gerði Kjartan hana opinbera. Hún hefur verið að skora vel allar götur síðan, við heyrðum nú af nýju dæmi frá Hvolsá og Staðarhólsá og haldi þeir í sér andanum sem þola ekki lengur að lax sé drepinn.

 

Zeldan er svakaleg fluga. Þegar ritstjóri kastaði henni fyrst var tveimur löxum landað í Svartastokki í Kjarrá við glataðar aðstæður. Hún gefur oft þegar allt annað bregst og magnað hvað margir eru að reyna hana svona í lokin til þrautar, í staðinn fyrir að byrja bara með hana og byrja strax að setja í fiska. Hvað sem það er við þessa flugu, þá er hún mögnuð, ritstjóri hefur reynslu af því. Hún virkar eins og long tail Black Brahan gerði í gamla daga þegar enginn þekkti þá flugu. Ólafur E. Jóhannsson lét mig þá hafa nokkur eintök. Var að fara í Álftá og hann gaf skýr fyrirmæli. Reyna hana bara ef allt annað væri að klikka. Dagurinn endaði með fimm löxum, allir á long tail Black Brahan þegar búið var að reyna eitt og annað. Reynslan af Zeldu vekur þessar minningar. Hún virkar eins.