Norðausturhornið er í lagi

Laxi landað í Selá. Mynd frá Sveini Björnssyni.

Annað kvöld koma nýjar tölur á angling.is og þá verður fróðlegt að sjá uppgang eða …..niðurgang? í einstökum ám og landshlutum.

Fregnir síðustu daga herma að það séu nokkuð þéttar göngur á vestanverðu landinu og hafi glæðst norðan til og eitthvað líka sunnan til. Norðausturhornið er alltaf aðeins sér á báti, við heyrðum í Helgu Kristínu Tryggvadóttur, hins nýja sölustjóra Strengs, sem nú heitir reyndar Six Rivers Project, og hún gaf okkur skýrslu fyir sitt svæði.

„Það er ágætisgangur í Vopnafjarðaránum. Hofsá er komin í 133 laxa og Selá í 139 laxa á hádegi í dag (í gær). Megnið af aflanum þessar fyrstu vikur hefur verið vel haldinn tveggja ára lax en nú síðustu daga hefur smálaxinn látið meira sjá sig. Í Miðfjarðará í Bakkafirði hefur 54 löxum verið landað á stangirnar tvær.

Þröstur Elliðason sagði okkur í kvöld að lítið væri að gerast í Breiðdalsá, fáir farið, en skipulögð veiði væri fram undan. Hins vegar gengi vel í Jöklu eftir að hitaflóðið rénaði. Fyrir skemmstu fór áin yfir 100 laxa og er núna stutt frá 200 löxum, sem er afar gott og í samræmi við gott ´gengi í Vopnafirði.