Sambúðin: Himbrimar og veiðimenn

Klúbburinn. Myndin er fengin af vef Hlíðarvatns, líklega er höfundurinn Gústaf Ingvi Tryggvason.

Himabrimar eru stórkostlega fallegir fuglar og miklar veiðiklær. Þeir verpa alveg við vatnsbakkann vegna þess að þeir geta ekki gengið, svo aftarlega eru fæturnari á búknum. En þeir skipta sér oft af veiðimönnum og veiðiskapnum.

Á FB síðu vina Hlíðarvatns hafa verið skemmtilegar færslur nýlega. Þar eru tvö himbrimapör, en málið snýst um 7-8 átta himbrima hóp geldfugla. Þetta er ekkert algengt, en ritstjóri hefur þó séð þetta tvisvar á ævinni, á Elliðavatni og Langavatni á Mýrum. Þeir flakka þá saman strákarnir (kannski eru stelptur í hópnum en þetta minnir samt á karlaklúbba straumandanna og þar eru stelpur jafn bannaðar og í frímúrarahreyfingunni).

Hér fyrst færsla frá Gústafi Ingva Tryggvasyni:  „Var við veiðar á sunnudaginn var og við vorum búnir að fá 2 bleikjur upp úr Botnavíkinni þegar það komu nokkrir gestir í matarboð þar. Þeir náðu að belgja sig út þarna á svipað löngum tíma og tekur að fylgjast með einum fótboltaleik.  Á meðan á matarboðinu stóð náðum við að stela 2 bleikjum upp á milli fuglana.“

Í framhaldi af þessu segir Róbert Agnar Reynisson:  „Einn af þeim braut hjá mér fimmuna, hann for í fiskinn sem eg var með á.“ Og Stefán Þorri Helgason bætir þá við:  „Við deilum þá þeirri sameiginlegu reynslu. Þeir voru reyndar þrír sem fóru í fiskinn hjá mér.  Fer ekki með nýju stöngina nálægt þeim, það er á hreinu.“

Ritstjóri var að veiðum í Heiðarvatni í júní og þá voru tveir himbrimar að veiðum 10-15 metra frá mér, eltu bara bleikjuna sem var að taka nokkuð vel. Þeir komu upp með bleikjur, m.a. stærri en þær sem ég var að setja í. Eitt sinn hafði ég áhyggjur af því að þeir voru komnir of nærri og þá skyndilega rykktist línan til vinstri. Mjög fruntalega, en svo var allt laust. Augnabliki síðar skaut öðrum drekanum úr kafi. Hann hafði synt á línuna.

Þeir eru svakalegir. Menn hafa þurft að berja þá af sér með háfunum (Í Veiðivötnum) og þeir hafa drepið álftir sem hafa komið of nærri óðalinu, synt undir þær og kafstungið með goggunum sem eru eins og rýtingar. En fallegir eru þeir.