Þingvallavatn
Þingvallavatn. Mynd Heimir Óskarsson.

Bleikjan er farin að gefa sig í Þingvallavatni og fregnir þess efnis hafa heyrst víða að. Engin stórveiði, frekar að fiskarnir séu stórir en þó nokkrar 3-4 punda bleikjur hafa veiðst.

Oft hefur því verið fleygt að sérfræðingar í Þingvallavatni haldi fram að bleikjan fari ekki að koma upp að landi og taka flugur veiðimanna fyrr en birkið í þjóðgarðinum fer að taka við sér. Góðvinur VoV var einmitt á ferðinni á umræddum slóðum um helgina og leit sérstaklega eftir birkinu, og sjá, það var byrjað að kíkja. Og strax um helgina fóru að berast fregnir af bleikjum! Á vef Veiðikortsins er t.d. sagt frá veiðimanni sem landaði þremur boltafiskum og sá jafnvel enn stærri lónandi skammt frá landi. VoV heyrði af einum sem fékk fjórar á sunnudeginum og öðrum sem var með þrjár. Allt stóra fiska. Staðir sem nefndir voru í sömu andránni voru Lambhagi, Vatnskot og „Snáðinn“.