Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Þjórsá er byrjuð og byrjaði með blæstri, en augu flestra eru nú á Norðurá og Blöndu og framhaldinu. Norðurá byrjar á mánudagsmorguninn, Blanda daginn eftir. Í báðum ám hafa menn séð til þess silfraða.

“Við verðum með sérstaka boðsgesti í opnun Norðurár að venju og að þessu sinni verða það kannski ekki alveg jafn þjóðþekktir Íslendingar og hingað til,” sagði Einar Sigfússon sölufulltrúi Norðurár í samtali við VoV í kvöld. Gestir þessarar opnunar eru Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtala Íslands og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður félags eldri borgara. “Sindri fer fyrir hópi sem hefur átt undir högg að sækja og recur mikilvæga og góða pólitík fyrir sínu fólki, sama með Þórunni, eldri borgarar hafa búið við allt of kröpp kjör og hún hefur unnið slegglega fyrir kjörum síns fólks. Við viljum verðlauna þessu fólki með svona boði og um leið tækifæri til að vekja enn meiri athygli á stöðu þessara hópa sem verið hafa hlunnfarnir í þjóðfélaginu og þessu góðæri sem margir finna fyrir, en allt of margir bara alls ekki,” bætti Einar við.

Og horfurnar: “Við byrjum á mánudagsmorgun klukkan 8. Við vorum í dag að reyna að skyggna og veðrið var hagstætt, áin var að vísu í 50 rúmmetrum, en það rofaði til hvað eftir annað og þegar yfir lauk vorum við öll sammála um að við hefðum séð að minnsta kosti sex laxa á Brotinu og það hýrnaði aldeilis yfir okkur. Svo er eitthvað á Eyrinn, oft meira þar í svona miklu vatni, þannig að opnunin gæti orðið ansi spennandi,” sagði Einar að lokum.