30 punda plús lax í Elliðaánum?

Þessa mynd, úr teljaranum, birti Ásgeir með færslu sinni í dag.

„Nú er spenna, 126 cm lax á ferðinni í Elliðaánum,“ skrifar Ásgeir Heiðar á FB síðu Elliðaána fyrr í dag. Ef að teljaranum er treystandi þá er lax á sveimi í Elliðaánum sem er langt yfir 30 pundunum!

Að svo stór lax gangi í Elliðaárnar, eða í íslenska laxveiðiá yfirleitt er sjaldgæft. Helst að Laxá í Aðaldal geti státað af slíku í gegnum árin. Ekki eru þó allir á því að teljaranum sé treystandi og í kommentakerfi FB síðunnar segja sumir frá því að allt að þrír laxar hafi sést troða sér í teljarann í einu og hugsanlegt sé að tölvan hafi mælt samanlagða lengd þeirra! Skemmtilegri tilhugsun er samt sú að sannkallað stórhvel sé í raun í Elliðaánum og menn fari að styrkja tauma sína.