Veiðikortið með nýjan gjöfulan valkost!

Hlíðarvatn í Hnappadal
Hlíðarvatn í Hnappadal. Eins og sjá má þá er það margslungið yfir að líta. Mynd Veiðikortið.

Veiðikortið hefur kynnt til sögunnar nýtt vatn á langan lista sinn yfir góða og falleg veiðivötn. Hlíðarvatn, ekki þó í Selvogi heldur í Hnappadal á Snæfellsnesi. Það er gjöfult og vel þekkt veiðivatn með miklum fiski af báðum tegundum.

Hlíðarvatn í Hnappadal.
Hlíðarvatn í Hnappadal. Þarna mun vatnsstaðan vera há. Mynd Veiðikortið.

Í fréttatilkynningu sem Veiðikortið hefur birt segir m.a. um þetta mál:  „Það er okkur sönn ánægja að kynna Hlíðarvatn í Hnappadal í landi Hraunholta sem nýtt vatn í Veiðikortinu. Veiðikortshafar geta því strax nýtt sér vatnið þrátt fyrir að það sé ekki í bæklingnum sem fylgir Veiðikortinu. Hlíðarvatn í Hnappadal er eitt skemmtilegasta veiðivatnið á Vesturlandi.  Svæði Hraunholta, sem samningurinn gildir um, er hraunið að vestanverðu með veiðimörk við Svartaskúta og Hermannsholt. Eitt af sérkennum vatnasvæðisins er að vatnshæð í vatninu breytir sér mikið yfir veiðitímabilið og þar með veiðistaðir. Bæði bleikja og urriði er í vatninu. Í vatninu er mikið af fiski og hafa margir veiðimenn tekið ástfóstri við vatnið.“

Við þetta má bæta að ef VoV misminnir ekki þá var um tíma fyrir margt löngu rekið fljótandi hótel á vatni þessu. Sá rekstur stóð þó ekki lengi og má segja að hann hafi sokkið. Ekki þó í þeim skilningi að hótelið hafi sokkið í vatnið, en reksturinn bar sig ekki. En burtséð frá svoleiðis æfingum, þá höfum við hér á VoV margoft heyrt skemmtilegar sögur frá vatni þessu í gegnum árin. Sjá annars nánar á www.veidikortid.is