Hægur stígandi en öruggur

Ægissíðufoss, Ytri Rangá
Veitt í Ægissíðufossi í Ytri Rangá.

„Það er stígandi í þessu, hann er hægur en öruggur,“ sagði Kristinn Ingólfsson hjá www.veida.is í samtali í dag, en hann er með hópa í Ytri Rangá þessa daganna.

„Það er óhætt að segja að það eru engin læti, en góðu fréttirnar eru, að við erum að sjá göngur koma vaðandi inn, niðri í Djúpósi, í fossunum og víðar, það fer allt í einu lax að stökkva um allt, svo hættir það vegna þess að hann er að strauja í gegn. Bestu dagarnir til þessa eru 10-15 laxar, en útlit er fyrir að það aukist. Ég hef heyrt sambærilegt frá Eystri Rangá, hægur en öruggur stígandi,“ sagði Kristinn.

Kristinn bætti við að hann hefði góðar sögur að segja frá Soginu, veiðimenn á hans vegum hefðu veitt vel, m.a. í Alviðru og á Syðri Brú.