Syðri Steinsmýri
Myndin er tekin í gær við Syðri Steinsmýri í Meðallandi. Stutt í vertíð, en Vetur konungur ekki á þeim buxunum að hverfa á braut! Mynd Jón Hrafn.

Nú eru aðeins tvær vikur þar til vertíðin hefst og yfirleitt er fókusinn mestur á sjóbirtingsvatnsföll í Vestur Skaftafellssýslu. Jón Hrafn Karlsson, einn leigutaka Eldvatns, býr á svæðinu og er með puttann á púlsinum. Við heyrðum í honum fyrir helgi og atburðarrásin síðan sýnir glöggt hversu sveiflurnar geta verið miklar.

Fyrir um viku til tíu dögum gerði veturinn vart við sig á þessum slóðum og allt fór á kaf í snjó. Undir lok vikunnar sendum við Jóni skeyti og spurðum hann út í stöðu mála og svar hans var þetta: „Það er nú allur snjór farinn hérna í Meðallandinu. Veturinn hefur verið mildur og ekkert frost í jörðu þannig að vorveiðin leggst vel í mig“

Svarið barst okkur sem sagt á föstudeginum. Síðan brast á með öðru vetrarveðri og ástandið núna eins og myndin ber méð sér og er frá laugardeginum. Allt á kafi í snjó á ný og spurning hvert framhaldið verður. Reyndar opnar Eldvatn ekki formlega 1.apríl, en nokkur svæði á þessum slóðum gera það svo sannarlega, Vatnamót, Geirlandsá, Tungulækur, Tungufljót og fleiri og það er ekki óalgengt að allt sé á kafi í snjó með allskonar veðrum þegar fyrstu köstin eru þanin. Það er hluti af fjörinu, þ.e.a.s. óvissan með skilyrðin, sem oft eru harðneskjuleg. En menn hafa komist upp á lag með að setja í birtinga og eflaust verða þær all nokkrar myndirnar af stórfiskum sem við birtum hér á komandi vikum.