Eldislax
Þetta útlit er ekki af villtum laxi, hvað sem hver segir.

Það versnar bara. Í gærmorgun greindu staðarhaldarar við Vatnsdalsá í Húnaþingi frá því að lax sem veiddist í Hnausastreng bæri öll merki þess að vera eldislax. Myndirnar sýna að þetta er enginn villtur fiskur af stofni árinnar. Hann verður rannsakaður og ef satt reynist er það fjórði slíkur sem veiðist í íslenskri á í sumar. Velkomin til Noregs fyrir tíu árum!

Eldislax
Afturendinn! Ekki burðugur sporður þetta, en dugði til að synda langa leið og ganga í Vatnsdalsá.

Þetta var 70 cm fiskur með snjáða ugga og öll önnur einkenni eldislax sem sloppið hefur úr búri. Þessi fiskur var að sjálfsögðu tekinn og drepinn og verður sendur til rannsóknar, en niðurstaðan getur vart verið önnur en fyrirséð er. Þá er þetta sá fjórði í sumar…..þrír aðrir greindir nú þegar af Hafró, einn úr Laugardalsá, annar úr Staðará á Ströndum og sá þriðji í Selá í Skjaldfannardal.  Þetta bendir nú aldeilis margt til að þetta séu strokulaxar frá kvíum á Vestfjörðum.