Einn flottur sem gein yfir Black Ghost sunurst

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvort að eldri árgangar sjóbirtinga séu að halda uppi spennandi veiði nú í haust. Til marks um það er mikill fjöldi stórra gamalla fiska, en þeim mun minna hefur sést og veiðst af geldfiski, yngri fiskum sem eiga að koma inn í veiðina af krafti þegar þeir hafa þroska til. Eitthvað hefur þó bólað á þeim.

Við höfum rætt þetta reglulega við Jón Hrafn Karlsson leigutaka Eldvatns síðustu 2 árin eða svo og hann hefur bundiið trúss sitt við að geldfiskurinn komi eftir veiðitíma og því vitum við lítt um ferðir þeirra. Það kemur heim og saman við það sem Þórarinn Kristinsson fyrrum eigandi Tungulækjar sagði okkur um göngur geldfiska í lækinn, að þeir kæmu mjög seint og hann hefði haft það til siðs þegar Kristinn faðir hans var enn í fullu fjöri, að þeir fóru á Þorláksmessu og mokveiddu nýgenginn geldfisk. Og síðan væri hann að ganga allan veturinn. Á vorin, í apríl og mai, væri síðan mikið af geldfiski í læknum og augljóslega væri mikið af honum nýlega genginn fiskur, fiskur silfurbjartur og hreistrið laust á bolnum.

Kristján Páll Rafnsson leigutaki Tungufljóts hefur verið tíður gestur þar eystra í haust og hann sagði í samtali við að fyrir nokkru síðan hefði komið gusa af geldfiski, „þetta voru 40 til 55 sentimetra fiskar, alveg silfurbjartir og fallegir. Ég trúi því sem sagt og vona að kenningar um hversu seint þeir ganga sé sannar og réttar,“ sagði kristján Páll.

Þá var önnur vísbending á dögunum, holl sem landaði 18 löxum í Vatnsá í Heiðardal, var auk þess með „fimmtán smáa sjóbirtinga“. Kannski að áhyggjur af sjóbirtingnum séu með öllu óþarfar.