Auknar göngur í Rangárþingi

Knútur Lárusson með fallegan lax af eystri bakka Hólsár....

Jónsmessustraumurinn virðist hafa hleypt smá lífi í laxveiðina og bætt geðslag bæði leigutaka og veiðimanna. Jóhann Davíð Snorrason hjá Kolskeggi, sem leigir meðal annars Eystri Rangá og eystri bakka Hólsár, hafði m.a. þetta að segja:

„Ég vissi það, það þurfti bara örlítið að ýta við laxaguðunum með örlitlum kolíslenskum bölmóð til þess að þetta myndi hrökkva í gang. Nú er sko bjart framundan, upp upp mín sál og upp á land með laxinn!

„Í gærkveldi (fyrrakvöld) færðist líf í tuskurnar á Austurbakka Hólsár þegar stór ganga kom inn og menn lentu í fínni veiði undir kvöld. Eða réttara sagt einn maður, Knútur Lárusson var einn að veiða vegna forfalla og snaraði hann á land fimm fiskum einn og sjálfur. Þetta voru gríðarvel haldnir laxar frá 10-12 pund. Í Eystri urðu menn líka varir við meira líf í gærkvöldi og þar kom á land stærsti lax sumarsins sem við vitum um eða 96 cm.“

í morgun var svo áfram gott líf í Hólsá en þar misstust nokkrir laxar, einn kom á land og auk þess nokkuð af sjóbirting.