Silungsveiði að glæðast út um allt

Tvær rígvænar bleikjur sem Ásgeir Ólafsson veiddi í Þingvallavatni fyrir fáum dögum. Mynd ÁÓ

Það er fleira fiskur en lax og við höfum verið að heyra fregnir af góðum silungaskotum, enda tími staðbunda silungsins kominn. Fór þó seint í gang vegna hins kalda vors.

Til að mynda hafa menn sett í vænar bleikjur í Þingvallavatni. Eitthvað virðist vera þar af þeim fiski þrátt fyrir áhyggjur margra af því að urriðinn sé óðum að éta bleikjuna upp.  Einn sem við heyrðum af fékk 11 stykki í kvöldtörn, þær stærstu um 4 pund. Annar sem við ræddum við skrapp eldsnemma morguns, veiddi í tæpa þrjá tíma fyrir vinnu og landaði 6 bleikjum og voru þær allar 2-3 pund. Þessar fréttir eru allar úr Þjóðgarðinum og menn með Veiðikortið upp á vasann.

Þá höfum við heyrt skemmtilegar fréttir af Hólaá, þeirri sem rennur úr Laugarvatni. Mikið er af silungi í ánni, bæði urriða og bleikju og stærðin nokkuð góð. IO selja í þessa á og eru með tvö svæði, hvort á móti öðru. Þarna eyddi fjölskylda með börnum heilum degi fyrir skemmstu og var 14 fiskum landað, blanda af urriða og bleikju og fiskarnir af góðri stærð, 1 til ríflega 2 pund.

Þá í Úlfljótsvatn. Þar heyrðum af manni sem skrapp með Veiðikortið eina kvöldstund fyrir stuttu. Hann fékk fjórar bleikjur við kirkjuna og var sú stærsta ríflega 3 pund. Í víkinni norðan við kirkjuna bætti hann við fjórum fiskum, þremur bleikjum, öllum um 1,5 pund og 2 punda urriða.

Silungsveiðin er víðast hvar að taka við sér, enda stutt í júlí. Þetta fór seinlega í gang vegna kulda, en nú er komið einhverskonar sumar og þá fylgir silungurinn með.