Laxfoss, Laxá í Leirársveit
Laxfoss í Laxá í Leirársveit.. Myndin er fengin að láni frá FB síðu leigutaka árinnar.

Vikutölurnar eru komnar og þetta er sem áður svart og hvítt. Það sem virðist liggja hvað mest fyrir er að Vestur Húnavatnssýsla hefur farið varhluta af smálaxagöngum á meðan að þær hafa verið þokkalegar til góðar víðast hvar annars staðar. Skoðum nú tölurnar hjá angling.is

Förum yfrir þessar tölur í þeirri röð sem þær birtast á angling.is, hæsta talan fyrst, síðan koll af kolli. Fyrst er heildartala þessa sumars til þessa, , þá vikutalan og í sviganum sambærileg tala frá síðasta sumri:

Þverá/Kjarrá        1975 – 158 (1393)

Ytri Rangá             1512 –  398 (2287)

Miðfjarðará           1422 – 374 (1852)

Eystri Rangá          1367 – 297 (672)

Norðurá                  1352 – 121 (1175)

Haffjarðará             1075 – 127 (808)

Urriðafoss                1038 -83    (656)

Langá                        1003 – 160 (963)

Blanda                        771 – 103 (1074)

Selá                             706 – 214  (525)

Elliðaárnar                684 – 118 (647)

Laxá í Kjós                 667 – 116 (471)

Grímsá                        637 – 61   (687)

Laxá í Dölum            562 – 137 (247)

Laxá í Leirársv.        459 –  86  (334)

Laxá í Aðaldal           415 – 65 (444)

Haukadalsá                412 – 65 (257)

Laxá á Ásum              402 – 67 (536)

Hofsá                           384 – 104 (273)

Hítará                          369 – 32  (291)

Víðidalsá                     309 – 77 (444)

Brenna/Hvítá            306 – 36 (209)

Jökla                             303 – 103 (165)

Vatnsdalsá                  244 – 31 (369)

Straumfjarðará         218 – 73 (196)

Miðá                             185 – 26 (185)

Þverá Fljótshl.           177 – 82 (120)

Búðardalsá               172 – 28 (123)

Svo sem sjá má þá eru margar betri en á sama tíma í fyrra, aðrar lakari og enn aðrar varla með marktækan mun á milli ára. Eftirtektarvert er siglingin á Þverá/Kjarrá og merkilegt að á þessu stigi vertíðar sé ein af sjálfbæru ánum enn í efsta sætinu. Þó að líklegt sé að Ytri taki framúr á einhverjum tímapunkti þá er þetta eigi að síður mögnuð frammistaða. Þótt vikutalan í Ytri sé flott þá er áin þó mun lægri en á sama tíma í fyrra, en Eystri Rangá að sama skapi miklu betri nú en þá og hefur dagsveiðin í hennni hlaupið upp í 147 laxa þegar best hefur látið.

Átta ár eru komnar í fjögurra stafa tölu og í raun er í einu tilvikinu aeðins um afmarkað svæði að ræða, Urriðafoss í Þjórsá þar sem veiðin hefur verið með ólíkindum.

Ýmsar þekktar ár í Húnavatnssýslu vestari eru með talsvert lakari tölur en í fyrra og mikið talað um smálaxabrest í því samhengi. Jóhann Rafnsson umsjónarmaður við Víðidalsá sagði þetta: „Það er búið að vera ágætt undanfarna daga. 15 laxar á dag, mest nýr smálax en heildartölur í sumar frekar lágar. Hollið sem er núna er komið með 51 eftir 3,5 daga. Þetta er slök heildartala 320 laxar, það er mjög lítið af tveggja ára laxi. En veiðin undanfarið batnandi og mest smálax.“