Ólafur Tómas og Dagbók Urriða

Ólafur Tómas Guðbjartsson með glæsilegan sjóbirting úr Hópinu.

Ólafur Tómas Guðbjartsson sendi nýverið frá sér sína fyrstu og mögulega einu veiðibók. Dagbók Urriða heitir hún er er Salka útgefandi. Ólafur sagði í samtali við VoV að bókin væri nokkurs konar samantekt á reynslu sinni síðustu áratugina, sem hefur verið þroskasaga „vörðuð miklu af klúðri“ eins og höfundurinn orðaði það skellihlægjandi.

„Ég tek sjálfan mig ekki alvarlega og bókin er að miklu leyti skrifuð á léttu nótunum þar sem hlegið er að klúðri og vitleysu, einkum hjá sjálfum mér, en ég geri ekki mikið grín af öðrum. Það er ekki minn stíll. En á sama tíma rekur þessi samantekt sem telur 240 blaðsíður svo margt sem ég hef lært á ferlinum, svo margt sem komið ðhefur í ljós, en er að sama skapi svo yfirgengilega full af því sem maður á enn ólært og hvað maður hefur ekki áttað sig á. Ef einhver stangaveiðimaður telur sig útskrifaðan þá væri fengur að hitta slíkan. Ég efa að slíkur veiðimaður sé til þó að einhverjir kunni að telja sig á þeim palli,“ sagði Ólafur Tómas.

Ólafur og Salka voru með útgáfuteiti s.l. föstudag. Þar áritaði höfundurinn bækur í gríð og erg. Mynd frá Sölku.

Og hann varðar frásögnina með veiðisögum, sem eru eðli málsins samkvæmt, margar spaugilegar. Margar snúast um „landvinninga“ á veiðisviðinu, enda veiðimaður á ferðinni með mikla reynslu, aðrar eru um „klúður og vitleysu“.

Ólafur Tómas er fyrst og síðast silungsveiðimaður. „Það dettur einn og einn lax inn í frássögnina, en fyrst og fremst er þetta silungsveiði. Og það er mikill misskilningur hjá mörgum að stangaveiði snúist um hversu mörgum fiskum var landað, hverra sortar græjurnar eru eða hversu vel upphækkaður jeppinn er. Þetta snýst um mann sjálfan. Að fara út í náttúruna og takast þar á við sjálfan sig. Verða einn með náttúrunni og ef maður setur í sterkan fisk þá er það bara bónus.“

Ólaf Tómas þekkja ýmsir veiðimenn vegna Podcastsins sem hann hefur haldið úti. Undir sama nafni. „Já, maður hefur verið að brasa svo margt, en Podcastið á sér þær rætur að árið 1896 fékk Bjarni Sæmundsson 800 króna styrk frá stjórnvöldum til að fara um landið og gera úttekt á lax- og silungsveiðislóðum. Það er nú búið að moka inn talsvert mörgum núllum ef við veltum þessari peningupphæð fyrir okkur, en þetta dugði Bjarna og hann setti saman myndarlega skýrslu.

Ólafur er mikið í vatnaveiðinni, hér er glæsilegur afli. Myndin er af FB síðu Ólafs.

Hugmyndin  með Podcastinnu var að fara í fótspor Bjarna og athuga hver staða þeirra svæði sem hann athugaði er nú, hvað hefur breyst og svo framvegis. Bókin er hins vegar byggð á mínum eigin dagbókum, minni reynslu og upp úr stendur að eftir þessa áratugi er að það er miklu meira sem ég veit ekki heldur en ég veit. Mér finnst það æðislegt. Ég elska það. En ég skrifa um það sem ég tel mig hafa lært og set fram eigin kenningar um eitt og annað. Og þar sem þetta er svo mikill leyndardómur þá eiga mínar skoðanir jafn mikinn rétt á sér og annarra,“ bætir Ólafur Tómas við.

Og eitt að lokum, komin fyrsta bókin, kemur þá önnur? „Jahhh, veit ekki . Nei ekki endilega, allavega ekki strax. Ég er nú fertugur í dag. Vonandi get ég veitt í önnur fjörtíu ár. Kannski kemur þá önnur bók, hún gæti heitiið: Dagbók Urriða 2 – 40 ár í viðbót af klúðri og vitleysu“!