Urriðafoss ber af í upphafi vertíðarinnar

Þjórsá, Urriðafoss
Þetta er augljóslega krefjandi veiðislóð, en gjöful er hún!

Það er ekki ofsögum sagt að upphaf þessarar laxveiðivertíðar hefur ekki verið upp á marga fiska. Og þó að ótímabært sé að mála fjandann upp á vegg þá eru ýmsir byrjaðir á því engu að síður. Einn veiðistaður stendur þó upp úr eins og tindur og það er Urriðafoss í Þjórsá.

LV birti sínar fyrstu vikutölur á angling.is nú í vikunni og þar kemur fram að á meðan að flestar af þekktustu ánum hafa verið rétt í kroppinu og varla það, hafði Urriðafos gefið 331 lax á fjórar stangir. Það er rétt yfir 3 laxar á stöng á dag, en veiðin þar hófst 1.júní síðast liðinn.

Urriðafoss er þekktur fyrir byrja sterkur og haldas sterkur fram eftir sumri, en dala kannski þegar á líður. Athyglisvert er, að þessi veiði úr fossinum nú er ríflega þriðjungur af heildarafla síðasta sumars, en þá veiddist 901 lax skv tölum angling.is. Þannig að það er ekki eintómur barlómur.