Má kalla þetta náttúruhamfarir?

Laxá í Dölum við Brúarstrenginn. Afar lítið vatn í ánni.

Vatnsleysi í ám á suðvestan,- vestan og vesturhluta Norðurlands hefur verið átakanlegt. Vatn víða svo lítið að það kemur harkalega niður á laxagöngum og þar með veiðum. Sumar af bestu og frægustu laxveiðiám landsins eiga undir högg að sækja í fordæmalausum þurrkinum. Það er þó væta í kortunum á sunnudaginn og mánudaginn. Spurning síðan hvert framhaldið verður.

VoV gerði víðreist síðustu daga, endastöðin á sunnanverðum Vestfjörðum í sjóbleikjuleit, en á leiðinni var ekið yfir all nokkrar af umræddum þekktu laxveiðiám. T.d. Fáskrúð, Laxá í Dölum, Haukadalsá, Laxá í Leirársveit svo að einhverjar séu nefndar. Hér eru myndir sem segja söguna.

Svona lítur Skálmardalsá út þessa daganna.

Meira að segja sjóbleikjuárnar á umræddu svæði Vestfjarða eru svo rýrar að bleikjan er treg að fara uppúr sjávarfallasveiflunni. Í staðin fyrir að einhverjar sitji eftir að háflæði loknu, er engu líkara en að þær skynji ástandið og hopi aftur út með útfyrinu. Það var a.m.k. reynsla VoV af Skálmardalsá og við höfum heyrt að víða sé svipaða sögu að segja. Líklegast sé til fanga þegar útfallið er komið á fulla ferð og fiskur enn á svæðinu. Eftir sitja síðan örgrunnir sjávarstrengið sem halda ekki fiski.

Fáskrúð rennur varla.

Veiðitölur úr ýmsum laxveiðiám endurspegla erfiðleika sem búið er við. Vikan í Laxá íDölum gaf 20 laxa og þar tala menn um að veiðin sé „þung“. . Laxá í Leirársveit var með vikuafla uppá 18 laxa og Norðurá, sem byrjaði hörmlega gaf 28 laxa, svo dæmi séu tekin. Þó að þetta séu vissulega veiðitölur sem menn eiga ekki að venjast á þessum tíma sumars, þá sýna þær þó að það er verið að slíta upp fiska og þar með vita menn að þetta er ekki vonlaust. Enda er allnokku- gengið af fiski og vandamálið er ekki fiskleysi.

En nú er samt vætuspá fyrir sunnudag og mánudag. Á veðurkortum á vefsíðu Veðurstofunnar má sjá að væta þess nær yfir Suðvesturland, allt Vesturlandið að Vestfjörðum meðtöldum og af og til er það að teygja sig inn á vestanvert Norðurland. Óskandi að þetta verði voðalegar dembur.