Elliðárnar opna í fyrramálið

Dagur B Eggertsson, Elliðaárnar
Dagur borgarstjóri kemst á blað. Myndin er frá 2017. Mynd Odd Stenersen.

Elliðaárnar opna í fyrramálið, sunnudaginn 21.júní og hefst seremónian klukkan 7. Þá verður kynntur „Reykvíkingur ársins“ sem fær að byrja. Það er siður sem Jón Gnarr kom á fót í borgarstjóratíð sinni. Vel til fundið Jón Gnarr. En hugum að fréttatilkynningu sem okkur bars frá SVFR sem er leigutaki árinnar:

Opnun Elliðaánna 2021 verður nk. sunnudag, 21. júní klukkan 07:00 við veiðihúsið. Þetta er í 82. skipti sem árnar eru opnaðar og er heiðurinn af opnuninni í höndum Reykvíkings ársins 2021.
Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, mun í framhaldi renna fyrir lax. Laxinn er þegar genginn í árnar og má reikna með líflegri stemningu við bakkann. Það verður spennandi að sjá við hvaða veiðistað í Elliðaánum laxinn kemur upp en hann er sennilega sá lax sem mest er myndaður á landinu á hverju ári.
Elliðaárnar eru í dag meðal bestu laxveiðiáa landsins þökk sé stofnendum félagsins og hluti af stórkostlegu útivistarsvæði Reykvíkinga. Fjölmargir ungir veiðimenn taka þar sín fyrstu köst á hverju sumri og blómstrar stangaveiðiíþróttin sem aldrei fyrr.“
Elliðaárnar. Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.
Svo mörg voru þau orð og það er alltaf spennandi hátíð að hyggja að því hvernig mál ganga í Elliðaánum. En því er ekki að neita að þó að SVFR geri allt sem í sínu valdi stendur til að halda utan um perluna, þá fer þessi opnun fram í skugga mengunarfregna á dögunum, virtist sem olía hafi leikið í árnar og mátti sjá á myndefni brák á ánni og gæsarunga olíublaut. Fram kom í fréttum að Borgaryfirvöld höfðu haft pata af þessu nokkrum dögum áður, en lítið eða ekkert aðhafst. Þó að í ljós hafi komið að „ekkert benti til þess“ að olía hafi lekið í árnar þá mátti af umræddu myndefn ráða að ekki var allt með felldu. Því miður er þetta alls ekki í fyrsta skiptið sem að árnar verða fyrir barðinu á „umhverfi“ sínu. Hætt er við einn góðan veðurdag verða Elliðaárnar falleg saga sem endaði illa.
Þess má og geta, að fyrsta skipti í jahh… maður gæti haldið tuttugu ár, verður Ásgeir Heiðar ekki leiðsögumaður þeirra sem opna. Það eitt og sér setur svip á opnunarhátíðina, hversu oft hefur ekki sá maður séð til þess að það komi lax á land?