Nils með glæsilegan hæng s.l. laugardag.

Laxá í Aðaldal hefur ekki farið varhluta af slæmum fréttum og lélegum tölum, en drottningin lumar alltaf á gersemum. Venjulegir veiðimenn og jafnvel nýliðar geta dottið í lukkupottinn, en ef að þú ert laxahvíslari þá áttu meiri möguleika.

Nokkrar af laxaflugum Nils, falleg hauststemming hér á ferð.

Nils Folmer Jörgensen er slíkur hvíslari og hefur verið hundtryggur við Laxá, einkum Nesveiðarnar, um árabil þrátt fyrir tröppuganginn í göngum og veiði. Enda er áin svo töfrandi og alltaf von á þeim stóra.. Hann lýsir síðasta laugardegi svona, en hann var þá staddur í Nesi:

„Að vakna 5.september. Eftir að hafa upplifað skítakulda, blauta og vindasama daga var ég aftur kominn heim í Nes. Pallurinn var hélaður, áin bólgin og lýkari súkkulaði á litinn en ginlitnum sem við elskum öll sem elskum Laxá. Óhjákvæmilega vaknaði spurningin, af hverju er maður að þessu? En flugan mín Beygjan, sem er skírð í höfuðið á veiðistaðnum Beygjan var gripin fljótlega. Þetta var lítill hænhur og kannski meira en búast mátti við úr ánni eftir svona sumar, við þessar aðstæður. En drottninginn rétti að mér fleiri af perlum sínum og ég endaði daginn með fjóra laxa. Aldrei skal segja aldrei, sérstaklega í laxveiði.“