Norðurá – „Skemmtilegt eins og alltaf“

Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

VoV forfallaðist á bökkum Norðurár þegar áin var opnuð í morgun. Óvæntir hlutir geta komið upp á. En við heyrðum í Einari Sigfússyni sölustjóra árinnar nú í kvöld og tókum púlsinn á stöðunni. Einar var afar ánægður með daginn, „skemmtilegt eins og alltaf“,  en var þó ekki að fullu búinn að ná utan um gang mála á seinni vaktinni.

Ingvar Svendsen veiddi fyrsta laxinn í Norðurá í morgun, það var þessi glæsilegi hængur á Stokkhylsbrotinu.

„Það var gullvatn í ánni eftir að það rigndi í kjölfar hinna langvarandi þurrka. Það er hald okkar að mikið af fyrstu löxunum séu gengnir fram eftir. Ekki hefur þó verið leitað ofan Laxfoss í dag enda menn spenntir fyrir svæðunum hér fyrir neðan sem vonlegt er. En það hefur verið nokkuð líflegt og greinilega all nokkur slæðingur af laxi genginn í ána. Það náðust tveir á Brotinu í morgun og aðrir tveir sluppu. Sjálfur reisti ég lax fjórum sinnum á Brotinu en aldrei tók hann þó,“ sagði Einar. Þá sagði hann lax hafa komið af Stokkhylbrotinu og var það fyrsti laxinn úr ánni 2021. Enn fremur hafði hann frétt af laxi í Myrkhylsrennum seinni partinn og átti hann allt eins von á að heyra af fleiri löxum, enda menn varla lagðist af stað í hús er viðtalið fór fram.

„Heiðursgestur opnunarinnar þetta árið var Guðni Ágústsson fyrrum landbúnaðarráðherra. Hann fékk sinn fyrsta flugulax sem reyndist vera stórglæsileg skepna, 87 cm hængur og alltaf sérstakt þegar hængar veiðast í opnun. Yfirleitt eru það mest hrygnur, en löngum hefur það þótt vita á gott að hængar sýni sig svo snemma,“ sagði Einar.

Gylfi Þór Sigurðsson, EInar Sigfússon, opnun Norðurár
Einar hefur verið sölustjóri Norðurár frá 2013 og yfirséð hinar fjölmiðlavinsælu opnanir árinnar. Oftar en ekki með landskunna gesti, eins og hér um árið er Gylfi Þór Sigurðsson fótboltahetja var sérstakur gestur dagsins. Mynd -gg.

                                                     Þáttaskil

Einar greindi frá því að á aðalfundi Veiðifélags Norðurár nú í lok vikunnar hefði hann skilað inn bréfi þar sem hann sagðist ekki myndu óska eftir framlengingu á samstarfi. „Við ákváðum þetta í vetur, hjónin, ég hef verið með þennan rekstur síðan 2013 og einfaldlega komið gott. Við erum ekkert að yngjast frekar en aðrir og kominn tími á yngra blóð. Ef ég færi að halda hér áfram væri ég komin fast að áttræðu þegar yfir lyki með samstarfið og það er einfaldlega ekki fýsilegt,“ sagði Einar.

Og hann hélt áfram: „Allt er þetta gert í friði og spekt og við teljum að stærstu markmið hafi náðst. Húsið verið gegnumtekið og er nú skuldlaust, kominn góður kúnnahópur og áin vel seld. Allir hlutaðeigandi geta verið fullsæmdir af þeim árangri sem náðst hefur.“

                                                  Ræktunarátak

Einar segir fram framtíðaráformum með ána þó að þætti hans ljúki í haust. „Hér er stefnt að því að byggja upp á sem gefur að jafnaði 3000 laxa á sumri. Ef eitthvað hefur skyggt á veru mína hér þessi 9 ár, þá er það sú staðreynd að fjögur þeirra hafa verið einstaklega döpur veiðisumur. Það er samstaða um að setja í gang ræktunarátak, sem hófst reyndar í fyrrahaust þegar við drógum á og sendum þrjátíu laxa að laxeldisstöðinni að Laxeyri. Í sumar munum við fá sumaralin seiði  þaðan til dreifingar í efri ánni og hliðarám þar sem pláss er á búsvæðum. Næsta ár fáum við síðan gönguseiði sem sett verða í 2-3 tjarnir við ána. Samhliða þessu verður farið í hrognagröft í haust, en það er lang ódýrasta leiðin til að styðja við laxastofninn. Það er nefnilega svo að ég tel að allar þessar laxveiðiár þurfa nú á stuðningi að halda, álag á þeim hefur aukist, samgöngur með ánum, fleiri og betri veiðimenn. Þær þurfa stuðning og í Norðurárdalnum munu menn ekki bregðast því kalli.“