Sogið. Syðri Brú.
Veiðisvæði Syðri Brúar, veiðihúsið neðst til vinstri, Landaklöpp á miðri mynd og til hægri, Arnarhylur neðan við flúðirnar og lengst niður frá Sakkarhólmi.

Svæði Syðri Brúar í Soginu, sem lítið og fátt hefur frést af er nú komið í umferð aftur ef svo mætti að orði komast, en Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár hefur tekið við svæðinu.

Syðri Brú er efsta veiðisvæði Sogsins að austanverðu og þekktasti veiðistaður svæðisins er jafnframt einn frægasti veiðistaður árinnar, hin eina sanna Landaklöpp þar sem margar glímur hafa verið háðar við stóra laxa í gegnum tíðina. Arnarhylur og Sakkarhómi eru einnig merktir veiðistaðir á svæðinu en hvorugur er gjöfulll í samanburði við Landaklöpp. Á öndverðum bakka er Útfallið fyrir landi Bíldsfell.

Aðeins er veitt á eina stöng í Syðri Brú og fylgir vel búið fjölskylduvænt veiðihús sem er staðsett í göngufæri við Landaklöpp.