Stórlax. Alviðra er fræg fyrir þá.

Eins og flestir áhugamenn um laxeiði vita nú þegar þá var lokuð ráðstefna fyrir skemmstu á vegum Strengs og INEOS um framtíð laxastofna. Strengur og INEOS hafa hvatt til nokkra af fremstu sérfræðingum veraldar á þessu sviði og hér birtum við fréttatilkynningu frá Streng um efni ráðstefnunar. Fleira fylgir síðar frá okkur.

Þetta hljómar svona; „Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi, sem komið var á fót af Sir Jim Ratcliffe, stofnanda og formanni INEOS, fékk leiðandi sérfræðinga á heimsvísu til umræðna á ráðstefnu um framtíð Atlantshafslaxins.

Á ráðstefnunni var lofað að flýta rannsóknum sem aukið gætu skilning á þeim ógnum sem að tegundinni steðja og vinna hratt að gerð nýrra leiða til verndar og til að snúa við hnignuninni. Leiðandi sérfræðingar á sínu sviði – stærðfræðingar, greiningarfræðingar, vistfræðingar, líffræðingar, grasafræðingar – hvaðanæva að úr heiminum taka höndum saman í einu umfangsmesta framtaksverkefni heims til verndunar laxins. Átakið leiða í sameiningu Hafrannsóknastofnunin á Íslandi (Hafró) og Imperial College í Bretlandi. Niðurstöðum verður deilt meðal vísindamanna til stuðnings á öðrum svæðum.

„Norður-Atlantshafslaxinn er lykiltegund í vistkerfinu. Einfaldari vistkerfi áa á Íslandi veita kjöraðstæður til rannsókna. Breiddargráða þeirra þýðir einnig að næmni fyrir áhrifum loftslagsbreytinga er mögulega meiri en í öðrum heimshlutum,“ sagði prófessor Guy Woodward, frá Imperial College í London.

Dr Rasmus Lauridsen, yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Trust í Bretlandi, varpaði ljósi á ný gögn sem fengin eru með nýjustu merkingaraðferðum og genakortlagningu. Þessum hátæknigögnum er safnað á Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi til að greina breytingar á fæðisöflun, vexti og göngu, sem gætu hjálpað við lausn gátunnar um hnignun laxins.

Dr James Rosindell, sérfræðingur í megindlegri líffræði við Imperial College í London, kynnti notkun forspárlíkana með nýjum og eldri gögnum frá áratugaeftirliti Hafrannsóknastofnunar á Norðausturlandi. Eftir því sem verkefninu vindur fram munu ný líkön spá af mikilli nákvæmni fyrir um breytingar á laxastofnum, sem er mikilvægt baráttunni gegn hnignun laxins.

Í aðgerðum Verndarsvæðisins er lögð áhersla á varðveita vistkerfi bæði lands og ánna á Norðurausturlandi og styðja með því við einn af síðustu griðastöðum heims þar sem laxinn dafnar enn. Í ánum sem um ræðir er að finna einhver einföldustu vistkerfi sinnar tegundar. Með rannsóknarniðurstöðum úr þessum vistkerfum eru mestar líkur á að hægt sé að greina ástæður hnignunar laxins og finna leiðir til að snúa þróuninni við.

Aðgerðir Verndarsvæðis laxa á Norðausturlandi byggja á þremur þáttum; árvissum grefti hrogna laxa úr ánum sjálfum, byggingu laxastiga til að opna laxinum ný uppvaxtarsvæði, og á uppgræðslu og skógrækt til að auðga fæðuúrval fisksins í ánum. Allar miða þessar leiðir að því að styðja við fiskinn í ánum og auka lífslíkur hans. Um er að ræða raunhæfar stuðningsaðgerðir sem unnar eru í nánu samstarfi við bændur á svæðinu og nærsamfélagið.