Seiðasleppingar í íslenskar laxveiðiár, sérstaklega þær á vestanverðu landinu, eru í uppnámi eftir að seiðaeldisstöðin að Laxeyri í Borgarfirði var lokað á dögunum. VoV leitaði viðbragða þeirra sem málið gæti varðað, en fjöldi laxveiðiáa á vestanverðu landinu hafa notið Laxeyrar.

Það er ekki lítið mál að sú seiðaeldisstöð sem framleitt hefur seiði fyrir fjölda laxveiðiáa leggi upp laupana. Eftir því sem VoV kemst næst hafa deilur um vatnsréttindi valdið þessari niðurstöðu. Talað er um að árnar séu sjálfbærar, en í flestar hefur verið sleppt seiðum til að styðja við náttúrulegu framleiðsluna. Seiðaeldi er nú aðeins til taks á Laxamýri í Suður Þingeyjarsýslu eða hjá Einari Lúðvíkssyni á Suðurlandi, en flutningskostnaður yfir í aðra landshluta gæti riðið þessum sleppingum að fullu, enda eru þær dýrar fyrir.

Okkur datt fyrst í hug að spyrja Jón Helga Björnsson formann LV og hann sagði: „Það eru stöðvar á Laxamýri og svo hefur Einar Lúðvíksson tekið að sér einhverjar ár. Ég held reyndar að seiðasleppingar hafi minnkað og að veiða og sleppa hafi að einhverju leyti komið í staðinn, en auðivtað eru seiðasleppingar sums staðar góð aðferð við fiskirækt. En satt best að segja vissi ég ekki að þetta væri vandamál.“

Tveir stórir leigutakar, SVFR og Hreggnasi eru með mörg svæði á þessum slóðum og við heyrðum í forsprökkum þar á bæ. Árni Friðleifsson, formaður SVFR sagði:

„Það sem við höfum heyrt af þeim svæðum sem við erum í tengslum við er, að það verði ekki sleppt að þessu sinni. En menn hafa miklar áhyggjur.  Kostnaður við sleppingar er kominn í rugl ef það þarf að keyra seiðin landshorna á milli. En það fer allt eftir hvað er tíundað í samningum hvernig kostnaður dreifist. Þannig að bæði hlutskiptin þekkjast, leigutakar taka þátt og ekki. Þá hef ég einnig heyrt að í einhverjum tilvikum ætli veiðifélög að lækka skammtinn t.d úr 30.000 stk í 15.000. Svo er spurning hvað Einar Lúðvíksson er til í að láta frá sér, hann þarf jú að hugsa um Rangárnar. Svo er líka hægt að sjá fyrir sér að einhver veiðifélög tali við þá á Laxamýri fyrir norðan. Vandamálið er bara allavega, í þeim sem ég hef heyrt í, er þessi mikla hækkun á flutningskostnaði sem á endanum lendir alltaf á veiðimönnum. Síðan hef ég hef einnig heyrt að í einhverjum tilvikum ætli menn hreinlega að grafa hrogn í ófiskgengar hliðarár og læki og halda þannig að einhverju leyti viðleitni til að vera með einhverja fiskirækt í gangi. Veit að það var allavega gert í tveimur ám á vesturlandssvæðinu“

Þetta sem Árni nefnir kemur einnig fram í annarri frétt okkar um aðgerðir leigutaka og eigenda við Straumfjarðará sem að brugðu á það ráð að flytja nokkur laxapör upp á ófiskgengt svæði í ánni og nýta beitina þar. En Haraldur Eiríksson sölustjóri hjá Hreggnasa sagði þetta um áhrif þessa á svæði þeirra manna, en Hreggnasi er m.a. með Laxá í Kjós, Brynjudalsá, Laxá í Dölum og Grímsá á sínum snærum:

„Mér finnst athyglivert  hversu lítil umræða hefur verið um lokun Laxeyrar. Það fara engin laxaseiði í eina einustu laxveiðiá á suðvestur- og vesturlandi næstu árin. Eitthvað sem sannarlega kemur stangaveiðimönnum við. Ótrúlega margar laxveiðiár  seiðalausar. Einu seiðin sem ég veit um eru í Norðlingafljót,  fengin hjá Einari Lúðvíkssyni, og Laxá í Kjós sem eiga sína eigin stöð í Brynjudal. Ég þekki ekki ástæður þessa Laxeyrarmáls, en mér skilst að um sé að ræða ágreining um vatnsréttindi. Það hafa aldrei verið seiðasleppingar í Laxá í Dölum. Í Grímsá hafa engar seiðasleppingar verið undanfarin ár, þannig þetta kemur ekkert við okkur eða okkar ár,“ sagði Haraldur.