Frábær byrjun í Selá

Sam, Julia, Gísli Ásgeirsson, Jim og George Ratcliffe

Selá var opnuð í morgun og óhætt að segja að vel hafi farið af stað. James Ratcliffe og börnin hans þrjú byrjuðu í Fosshylnum og eftir hálfa aðra klukkustund var búið að landa þremur löxum og missa einn í löndun. Mikið er af laxi í hylnum og stöðugt að bæta í.

Laxarnir þrír voru frá 67 og upp í tæplega 80 cm og allir lúsugir. Töldu viðstaddir að hátt í hundrað laxar væru í hylnum og á meðan veiðiskapurinn stóð yfir mátti sjá laxa vera að koma inn í hylinn. Þetta er ekki ósvipuð byrjun og í fyrra, en þá var reyndar heldur meira af laxi í Fosshylnum og dálítið minna vatn. Áin fór í tæpa 1300 laxa í fyrra eftir nokkur frekar mögur ár, spurning hvað gerist nú. Við verðum með nýja frétt um frekari aflabrögð í Selá þegar líður á daginn.