Enn er birtingur fyrir austan og þvílíkar sleggjur!

87 cm úr Geirlandsá í gærkvöldi. Smá kviðmjó, en annars í fantaformi og reif sig lausa frá veiðimanni sem bjóst smá tíma til að koma dömunni til á ný.... mynd -gg

Það er enn sama stórfiskaveislan í ám í Vestur Skaftafellsýslu, gömlu sterku árgangarnir eins og ganga aftur, ár eftir ár og nú má heita að ekkert sé að hafa í þessum annað en algjörar sleggjur. VoV hefur verið stopp í Geirlandsá síðan í gær og svona er staðan…

…..það er enn góður slatti af fiski, mest í Ármótunum, en einnig hafa nýlega komið veiðrokur niðri á Görðum, aðallega við „sjötta afleggjara“. VoV hefur sett í þá nokkra síðan í gær, m.a. einn 87 cm og misst annan í löndun sem var síst minni, jafnvel stærri. „Svona er þetta búið að vera síðustu árin, fiskur bara stækkandi. Þeim fer að vísu fækkandi þeim röddum sem segja okkur Suðurnesjamenn ganga illa um árnar okkar, en tölurnar tala sínu máli. Hjá okkur er aðeins meiri slaki, en batinn sá sami og stórfiskaveislan alveg sambærileg,“ sagði Gunnar Óskarsson formaður SVFK í samtali við VoV.

Þar sem við erum staddir í Geirlandsá akkúrat núna var við hæfi að gera smá úttekt á veiðibók. Í kvöld höfðu alls 223 birtingar veiðst í vorveiði og hafa þó skilyrði fjarri því alltaf verið góð, t.d. kuldakast snemma í apríl og endalaus sól og þurrkur seinni part apríl og það sem af er mai. Samt er svona góð tala í gangi. Og enn er fiskur, það hefur VoV sannprófað í dag og í gær.

En það er stærðin sem skiptir máli stendur einhvers staðar, af 223 birtingum eru sjö á bilinu 90 til 102 cm, 54 eru 80-89 cm og 67 stykki á bilinu 70-79 cm. Þetta eru svakalegar tölur og í stíl við tvö-þrjú síðustu ár. Nú fara þessir gömlu samt að deyja úr elli, en Gunnar sagði okkur að í byrjun, fyrstu daganna, hefði talsvert borið á geldfiski og hann er frægur fyrir að flakka. Þannig að menn eru ekki að bugast úr áhyggjum.

Í Eldvatni má segja eiginlega nákvæmlega það sama, Jón Hrafn leigutaki sagði fisk enn vera uppi í á, vorið hefur ekki verið það hlýtt í raun þrátt fyrir þrálata sól og þurrka. „Menn eru t.d. enn að fá fiska í Hundavaði og víðar“ , sagði Jón Hrafn og í máli hans kom einnig fram að megnið af voraflanum er mjög stór fiskur, frá 70 cm og upp í næstum meterinn.

Sömu sögu segja félagarnir í Fish Partner sem eru með Tungufljót á leigu. „Menn eru enn að gera góða veiði þar, aðallega í Syðri Hólma, á Flögubökkum og jafnvel allt niður í Tanga, (sem er góðan kílómeter neðan við Flögubakka), þetta er meira og minna stófiskur, 70 til 90 cm,“ segja þeir félagar.  Og við getum bætt við að í Tungulæk er nákvæmlega sama uppi á teningunum. Sem sagt kæru veiðimenn, þessi urriði, sem er svo náskyldur Þingvallaundrinu, er enn á svæðinu og gæti verið nokkuð fram eftir mai enn, ef ekki fer að rigna og hlýna. Þurrkurinn er þegar farinn að setja strik í reikninginn í lífríkinu, t.d. er tjaldurinn varla orpinn enn á Suðurlandi. Hann þarf raka til að geta brauðfætt ungviðið sitt.