Gunnar Egill, Kvíslafoss, Laxá í Kjós, Haraldur Eiríksson
Gunnar Egill með einn glæsilegan úr Kvíslafossi. Mynd Haraldur Eiríksson.

Veiði hófst í Laxá í Kjós í morgun og um miðjan morguninn var búið að landa fjórum löxum og missa nokkra. Stíf vestanátt og lélegur lofthiti spillti fyrir, en það eru verstu hugsanlegu skilyrðin í Kjósinni. Hins vegar er mikill lax um alla á og fiskur að hellast inn.

Gunnar Egill, Laxá í Kjós, Laxfoss
Gunnar Egill með fallegan lax úr Laxfossi í morgun.

Haraldur Eiríksson , sem er við leiðsögn við ána og er flestum mönnum kunnugri á þessum slóðum, segir þessa byrjun og byrjunina í laxveiðinni almennt, vera afburða góða. „Það er gullvatn í Laxá og staðan bæði hér og annars staðar minnir mig á sumarið 2010, þegar smálaxinn kom mjög snemma. Hér í Laxá er neðsat svæðið eins og júlídegi og það er fiskur um allt. Einir 30 í Pokafossi og lax að finna hvert sem litið er. Sums staðar ber á því að þeir séu byrjaðir að taka lit, svo langt er síðan að þeir gengu í ána. En skilyrðin voru ekki hagstæð í morgun, vestanstrengur og kalt í lofti. Það slekkur alltaf rækilega á alla töku hér í Kjósinni,“ sagði Haraldur.

                                            Laxinn á hraðferð

Undir þetta tók Björn Kristinn Rúnarsson, sem var að hætta með hóp í Þverá og er að fara að opna Vatnsdalsá í fyrramálið. „Það var sama sagan, það var lax um alla Þverá og allt gekk vel. En svo skall hann á með vestanátt og það fjaraði undan tökum. Samt var hópurinn með 44 laxa og við tókum upp á því að skrá líka hjá okkur til gamans missta laxa því okkur fannst fljótt vera mikið um það og laxinn tæki grannt. Alls voru slíkir laxar aðrir 44 og þá erum við bara að tala um fiska sem tóku og voru staðfastlega á hjá mönnum. Ekkert verið að eltast við að laxar eltu eða snertu fluguna, en af því var mjög mikið. Málið er, að laxinn er á mikilli hraðferð. Við vorum með Brennuna inni í skiptingunni og þar var veiðin bara rétt þokkaleg því að laxinn æddi þar bara í gegn. Ég hef aldrei séð meira af laxi í Kaðalstaðahyl miðað við árstíma, en það eru laxar stöðugt að koma og fara. Var með þýska veiðimenn í Guðnabakkastreng og við horfðum á laxatorfu koma æðandi upp grynningarnar fyrir neðan, með tilheyrandi gusugangi, bið rólegir eftir að fá þá inn í hylinn, en það var til lítils því að þeir stoppuðu ekki, æddu bara áfram upp og hurfu okkur,“ sagði Björn.