Gríðarlega líflegt í Kjósinni

Veiðileyfasalinn Stefán Sigurðsson með stóra hrygnu úr Káranesfljóti í vikunni.

Frábær veiði hefur verið í Laxá í Kjós eftir að hún var opnuð fyrir veiði fyrir um tveimur vikum síðan. Mikið er af sjóbirtingi í ánni neðanverðri og góð skilyrði að undanförnu hafa skilað hörku afla.

Þannig fengu hjónin Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson hjá IO, ásamt Matthíasti syni þeirra 20 fiska og alls hafa komið vel á annað hundrað fiskar á land. Sjóbirtingsstofn Laxár hefur verið mjög að styrkjast síðustu árin og þar sem þeim er nú öllum sleppt þá veiðast í ánni æ stærri fiskar, enda getur birtingurinn orðið fjörgamall og miklu eldri en frændi hans laxinn.

Þessar vorveiðar í Kjósinni hafa ekki farið hátt, fyrri leigutaki byrjaði ekki fyrr en í mai og notaði dagana til að bjóða leiðsögumönnum og vinum. Nýi leigutakinn hefur augljóslega gjörbylt fyrirkomulaginu því að hann hóf að selja vorveiðileyfi fyrir um hálfum mánuði og veitt verður nokkuð fram í næsta mánuð. Leigutakinn, Haraldur Eiríksson, er þrautreyndur veiðileyfasali og fór létt með að selja sjóbirtingveiðileyfin upp, enda frábær kostur fyrir styttri ferðir. Mest hefur veiðin að jafnaði verið í Álabökkum og Káranesfljóti og er engin breyting á því þetta vorið. Mikið er af fiski.