Kæru lesendur, hér er stigið fyrsta skrefið af fleiri en einu í breytingum á útgáfu okkar félaga. Nýr og betri votnogveidi.is. Innan fárra daga mun síðan veftímaritið okkar veidislod.is birtast lesendum í nýjum og gerbreyttum búningi. Þá eru tíðindi af Árbókinni okkar.

Þetta þarf ekki að vera langt, því að þetta lýsir sér sjálft. Hér er VoV einfaldlega færður nær nútímanum, enda staðið óbreyttur og óhaggaður síðan að hann var opnaður 1.apríl 2005. Já, það eru orðin ríflega ellefu og hálft ár síðan. Veidislod.is hefur einnig verið í yfirhalningu, en ef menn muna þá vorum við með fallegt og metnaðarfullt veftímarit, alls 15 tölublöð, á árunum 2011 til 2014. Það mun og skýra sig sjálft þegar það birtist lesendum innan fárra daga.

Árbókin. Hún sleppir úr ári að þessu sinni. Það eru viðbrigði því að hún hefur komið út í einhverri mynd allar götur frá 1988. Það er langur tími, en skoðun okkar er sú að breytinga sé þörf á henni, efnistökum hennar og forsendum. Þeirri vinnu er ekki lokið þannig að hún fór í stuttan dvala. Verður meira að frétta af henni síðar. Njótið vel kæru lesendur.