Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Fyrsti hundrað laxa dagurinn var í Eystri Rangá í gær og hefur veiði aldrei verið svo mikil í ánni svo snemma sumars. Stórlaxagöngur hafa gjarnan verið fjörugar frá miðjum júlí, en að svo mikill smálax blandist inn í pakkann svo snemma er óþekkt.

Afli gærdagsins var 102 laxar og fór í það úr 80 löxum daginn áður, en daganna á undan hafði dagsaflinn verið 50 til 55 laxar. Fróðlegt verður að sjá hvað angling.is segir annað kvöld eða nótt, og eins hvert framhaldið verður á þessum öflugu göngum. Á sama tíma hefur Ytri Rangá verið að taka við sér með 30-40 laxa veiði og stíganda. Eystri bakki Hólsár hefur einnig verið líflegur.