Hítará
Við Hítará. Myndin er fengin af vef SVFR.

Spennandi útboð er nú komið í gang, en í dag var birt auglýsing þess efnis að Hítará, hliðarár hennar Grjótá og Tálmi séu komnar í útboð ásamt Hítarvatni sem er eitt besta silungsveiðivatn landsins. SVFR hefur haft svæði þetta á leigu um árabil.

Í auglýsingunni stendur meðal annars: „Veiðifélag Hítarár óskar hér með eftir tilboði í lax- og silungsveiði á starfssvæði félagsins fyrir árin 2019 til 2022, að öllum árum meðtöldum.“

Hítará er spennandi og sérlega falleg laxveiðiá. Á vefsíðu SVFR segir að meðalveiði síðustu ára hafi verið um 690 laxar en satt að segja hefur veiði verið mjög sveiflukennd síðustu sumur.

Hítará, Lundur
Við Hítará, veiðihúsið Lundur. Myndin er fengin af vef SVFR.

Áin var t.d. slök í fyrra með 494 laxa og var það hrap úr 779 sumarið 2016. 2015 var afar gott, metveiði þá 1238 laxar, en mjög slakt árið áður, 2014 eins og svo víða annars staðar, 480 á land þá. 2013 var afar gott sumar vítt og breytt um land og fór Hítará ekki varhluta af því laxagóðæri því þá skilaði hún 1145 löxum þannig að með sanni má segja að tröppugangur hafi verið í veiðinni.

Búast má við miklum áhuga hjá veiðileyfasölum og verður grannt fylgst með gangi mála í ljósi þess að stutt er síðan að nágrannaáin Straumfjarðará fór í útboð. Hátt í tuttugu tilboð bárust og sum þeirra mjög há. Það hæsta átti SVFR sem fékk ána fyrir 35 milljónir sem var mikil hækkun frá því sem áður var. Hítarárbændur hugsa sér væntanlega gott til glóðarinnar með hliðsjón af þeim atburði.