Góð veiði og stórir fiskar

Robert Novak með algera sleggju úr Eldvatni.

Sjóbirtingsveiðin hefur verið á góðu skriði að undanförnu og sama hvaðan heyrast fréttir, alls staðar eru menn upplitsdjarfir og greina frá fínni veiði og stórum fiskum.

T.d. lauk hópur einn veiðum í Eldvatni, veiddi vel, m.a. nokkra 80plús og nokkra 70plús. Stærsti fiskurinn var 92 cm og einn sá stærsti í vor. Robert Nowak var einn hópsverja og sagði hann ferðina hafa verið frábæra og Eldvatnið væri ekkert annað en stórkostlegur veiðistaður.

Það er magnað til þess að vita að mörg af nafntoguðustu veiðisvæðum landsins eru svo gott sem uppseld að þessu sinni. Fyrst fór að bera á þessu í fyrra, en við vitum fyrir víst að Tungulækur er uppseldur, það staðfesti Ingólfur Helgason hjá Streng, og Kristján Páll Rafnsson hjá Fishpartner, sem er með Tungufljót á leigu sagði okkur fyrir nokkru að áin væri uppseld í vorveiðinni. Þá er víða lítið um glufur. Fyrir fáum árum var miklu auðveldara að komast í góða sjóbirtingsveiði að vori með litlum fyrirvara.