Veiði, Von, Væntingar

Sigurður við "væsinn". Myndin er frá Drápu.

Sigurður Héðinn, eða Siggi Haugur seins og hann er gjarnan kallaður. Fluguhnýtari, veiðileiðsögumaður og í seinni tíð rithöfundur í ofanálag, er að senda frá sér sína þriðju veiðibók á jafn mörgum árum. Veiði, Von, Væntingar heitir hún. VoV hitti Sigurð í flugustúdíóinu hans á Rauðarárstíg fyrir skemmstu.

„Bókin sver sig í ætt við hinar tvær, umfjöllunarefnið er þetta eðalsport okkar. Græjur, flugur, pælingar og skoðanaskipti um hin ýmsu mál sem eru efst og ofarlega á baugi, síðan er þetta allt saman kryddað með veiðisögum“ segir Sigurður aðspurður um efni bókarinnar.

Kápan…

En það kemur fleira til, hann tekur fyrir átökin á Norðausturhorninu og þær miklu breytingar sem orðið hafa á veiðifyrirkomulaginu víða, ekki síst á téðu Norðausturhorni og þá kannski helst í Selá. Ekki verður það tíundað hér, svo mikið hefur verið rætt og ritað um þær breytingar sem miða að sögn umsjónarmanna og eigenda að því að draga úr álagi á ánum og laxinum. „Ég deili áhyggjum margra af framtíð laxastofna og kannski er þetta eina leiðin til að stemma stigu. Þrátt fyrir ýmis boð og bönn, t.d. með sleppingu allra stórlaxa, þá eru allt of margir sem láta sér ekki segjast. Menn jafnvel státa sig af því að hafa drepið laxa sem þeim bar að sleppa. En á sama tíma minnka gæðin, verðin hækka vegna þess að allt of víða er ekki vilji til upbyggingar. Þarna er þó verið að reyna þó að enn sé margt umdeilt meðal veiðimanna,“ bætti Sigurður við.

Aðspurður um hvort fjórða bókin kæmi á næsta ári, glotti Haugurinn og sagði ekkert ákveðið í þeim efnum, „en ég hef enn frá nægu að segja,“ bætti hann við. Það er bókaútgáfan Drápa sem gefur bókina út og sagði Ásmundur Helgason hjá Drápu að bókin væri enn ókomin til landsins, en væri væntanleg.