Kólaskagi, Ponoi
Ponoi við Ryabaga í vikunni, snjór yfir öllu og áin á ís. Þarna átti að opna laxveiðina á morgun, en hefur verið frestað. Mynd Steve Estela.

Það er orðið örstutt í laxveiðina og sömu sögu að segja í nærliggjandi löndum. T.d. stóð til að opna Ponoi á Kólaskaga á morgun. Því hefur verið frestað – áin er enn ísilögð!

Áin Ponoi er ein af bestu og þekktustu laxveiðiám jarðkúlunnar. Ilya Sherbovich, sem sér aðdáendum Ponoi fyrir fréttabréfum og fréttamolum sendi þennan texta frá sér nú í lok vikunnar: “Ég hef beðið með að senda út fréttabréf um opnun Ponoi n.k. laugardag, þar til nú, að móðir náttúra hefur aðrar skoðanir á hver gangur mála skuli vera. Við erum að upplifa kaldasta vor sem um getur í 75 ár hér á Kólaskaga. Ponoi hefur verið ísilögð eins og sjá má á myndinni sem Steve Estela tók í vikunni. Hvað varð um þetta “hlýnun jarðar” dæmi? En jafnvel þó að við séum bjartsýn á að áin nái að hrista af sér klakaböndin á næstu dögum, höfum við ákveðið, af öryggisástæðum, að fresta opnun um viku.”