Kynning á nýju fyrirkomulagi við Laxá i Aðaldal

Eins og fram kom fyrir nokkrum misserum lagði Laxárfélagið upp laupana og endurleigði ekki svæði sín í Laxá í Aðaldal og niðurstaðan var stórbreytt fyrirkomulag þar sem áin verður seld í heild undir umsjá Nesbænda. Á fimmtudaginn verður þetta allt saman kynnt á hittingi í Veiðiflugum á Langholtsveginum.

Laxá í Aðaldal, Brúarhylur
Laxá í Aðaldal, myndin tekin við Brúarhyl. Mynd, -gg.

Í fréttatilkynningu sem barst frá Laxármönnum og Veiðiflugum mátti lesa svohljóðandi: „Laxá í Aðaldal, Laxamýri-Nes svæðin og Veiðiflugur bjóða til kynningar og samtals um Drottninguna og fyrirkomulag næsta sumars. Hittið okkur fimmtudaginn 25. febrúar frá kl 14-18 Í Veiðiflugum Langhotsvegi 111.  Kynnt verður nýtt veiðikort, svæðin og svæðaskipting. Fyrirkomulag á veiðihúsum.

Á staðnum verða. Árni Pétur Hilmarsson Hermóður Hilmarsson Nils Folmer Jørgensen Eiður Pétursson Jón Helgi Björnsson. Meistarakokkarnir okkar Ólafur Helgi Kristjánsson og Sigurður Helgason verða með léttar veitingar.

Þetta er hin merkilegasta uppákoma því að óhætt er að segja að stigið sé út í óvissuna. Að öll áin sé seld saman, veiðihúsin í Nesi og Vökuholti bæði í notkun. Þó að umtöluð niðursveifla hafi verið í ánni síðustu ár, heldur Laxá í Aðaldal eigi að síður sínum sess sem ein þekktasta, gjöfulasta og fallegasta laxveiðiá landsins. Fáar ef nokkrar eiga sér lengri og merkilegri sögu, um stórlaxa og veiðimenn.