Nýskipuð stjórn SVFR. Mynd Golli.

Aðalfundur SVFR var haldinn í vikunni og yfirleitt eru einhver tíðindi frá þeim bænum. Þau voru helst núna, ekki að Jón Þór Ólason fengi mótframboð, heldur að eftir kosningu til stjórnar eru nú þrjár konur í stjórn. VoV fullyrðir að það hafi ekki gerst fyrr, en því ber að fagna. Að eyða karllæga elementinu í stangaveiði er mikilvægt.

Í fréttatilkynningu frá SVFR mátti lesa þetta, og sjá í fulltrúadeild eru líka þrjár konur. : „Aðalfundur SVFR var haldinn í gær, þar sem metþátttaka var í kosningum til stjórnar og fulltrúaráðs. Alls voru 513 atkvæði greidd og hlutu Ragnheiður Thorsteinsson, Helga Jónsdóttir og Lára Kristjánsdóttir kjör til stjórnar. Í fulltrúaráð voru kjörnir fimm félagsmenn, þau Brynja Gunnarsdóttir, Lilja Kolbrún Bjarnadóttir, Elín Ingólfsdóttir, Karl Andrés Gíslason og Þórólfur Halldórsson. Jón Þór Ólason var sjálfkjörinn formaður til eins árs.

Jón Þór Ólason, farsæll formaður, kosinn án mótframboðs. Mynd Golli.

Á aðalfundi SVFR fór Jón Þór Ólason, formaður félagsins, ítarlega yfir liðið starfsár. Hann lýsti krefjandi aðstæðum veiðileyfasala á Covid-árinu 2020, sem kom í kjölfar vatns- og gæftaleysis árið 2019. Jón Þór upplýsti, að síðastliðið vor hefði blasað við tugmilljóna króna tap vegna aðstæðna, sem hafi tekist að lágmarka og tap ársins hafi aðeins verið um 2,8 milljónir króna. Það hafi verið varnarsigur, við erfiðar aðstæður.

„Að baki er ár sigra, þar sem samvinna og fórnfúst starf félagsmanna skilaði skútunni heilli í höfn – gegnum ólgusjó heimsfaraldurs og rekstaróvissu. Stjórn félagsins horfir stolt um öxl og björtum augum til framtíðar. Félagið er sterkt og hefur staðið af sér fordæmalausan storm. Tiltekt í rekstrinum gerir SVFR sterkt á hörðum samkeppnismarkaði, ný og eftirsótt ársvæði hafa bæst í svæðaflóru félagsins á sama tíma og félagið sagði sig frá óhagstæðum samningum. Samstarfið við landeigendur og veiðiréttarhafa er náið og gott, félagsmönnum hefur fjölgað og kraftmikið fólk hefur boðið SVFR sitt vinnuframlag, ýmist í nefndarstörfum eða stjórn. Fyrir það er stjórn SVFR þakklát og hlakkar til að sjá félagið – bakbeinið í íslensku veiðisamfélagi – vaxa og dafna.“