Jökla er komin á yfirfall!

Jökla, myndin tekin í dag við brúna hjá Brúarási. Þarna mun lítið veiðast á næstunni.

VoV  er á Austurlandi þessa daganna og við ókum yfir og meðfram Jöklu í dag. Hún er komin á blússandi yfirfall, vellur fram kolmórauð og lítt veiðileg. Þetta er alltaf sama vesenið, en í gegn um árin hefur þetta svona slampast með því að menn hafa getað veitt áfram í hliðaránum. En eftir alla þessa hita og þurrka þá eru þær sprænur nánast vatnslausar að Kaldá undanskilinni.

Jökla og hliðarárnar gáfu alls 860 laxa í fyrra. Menn dreymir um að hún fari íþúsund laxa eitt gott veðursumar, en þá koma alltaf flóðin ofan úr virkjun. Síðasta miðvikudag, fyrir viku, var tala Jöklu komin í 480. Eftir erfiða byrjun í vatnavöxtum og sólbráð þá var veiði um tíma mjög góð. Og menn jafnvel að vonast eftir að minnsta kosta sams konar veiði og í fyrra. Sjáum hvað setur, talsvert var komið af laxi og ef leigutakar ná nokkrum dögum í september eftir yfirfall, þá er aldrei að vita hvar þetta endar.