Straumfjarðará, Rjúkandi
Veitt á Rjúkandabreiðu neðan við fossinn Rjúkanda í Straumfjarðará. Mynd -gg.

Straumfjarðará er ekki lengur á framfæri SVFR, en félagið hefur selt í ána síðan sumarið 2017. Hafa hlutaðeigandi aðilar sammælst um að slíta samstarfinu og mun veiðifélag Straumu greina frá framtíðarfyrirkomulagi á næstu vikum. Af yfirlýsingum formanna VS og SVFR má ætla að samstarfið hafi verið með ágætum. Samt er því slitið.

Á vefsíðu SVFR segir: „Straumfjarðará er falleg 4ja stanga laxveiðiá á Snæfellsnesi, með fullri þjónustu í glæsilegu veiðihúsi. Félagsmenn SVFR og aðrir veiðimenn hafa notið þar góðrar þjónustu, sem áfram verður í boði fyrir áhugasama veiðimenn.

Jón Þór Ólason, formaður SVFR:
“Ég þakka Veiðifélagi Straumfjarðarár fyrir samstarfið undanfarin ár, sem hefur einkennst af góðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu. Það er ekkert launungamál að undanfarin tvö sumur hafa verið erfið á íslenskum veiðileyfamarkaði og almennt séð eru miklir óvissutímar framundan í íslensku samfélagi. Í því samhengi var samstarfið tekið til skoðunar og ákveðið í sameiningu að leiðir skyldu skilja, að svo stöddu. Héðan fer SVFR með góðar minningar og ég óska Veiðifélagi Straumfjarðará velfarnaðar á komandi árum.”

Páll Ingólfsson, formaður Veiðifélags Straumfjarðarár:
“Fyrir hönd Veiðifélags Straumfjarðarár vil ég þakka Stangaveiðifélagi Reykjavíkur fyrir samstarfið á síðastliðnum þremur árum. Samstarfið var lærdómsríkt, á margan hátt nýstárlegt fyrir okkur og samskipti við stjórn, starfsmenn og árnefnd SVFR var ánægjulegt og gott. Veiðifélag Straumfjarðarár óskar SVFR alls hins besta og velfarnaðar um ókomin ár.”