Þröstur leigutaki með ferlíkið...

Stærðar laxhængur, yfir 100 cm veiddist í klakveiði í Jöklu fyrir skemmstu og fór rakleiðis sprelllifandi en öskureiður ofan í kistu. Metveiði var í Jöklu ásamt hliðarám hennar eins og fram hefur komið.

Þröstur Elliðason leigutaki Jöklu birti þessa mynd af sér með hænginn sem er glæsilegur. Segir hann laxinn áætlaðan um 20 pund. Alls veiddust þrír laxar í þessum stærðarflokki í Jöklu á nýliðnu sumri, þar af einn sem var 107 cm. Hinir tveir 100 cm sléttir.

„Það er ljóst að engin niðursveifla var í ám Strengja þetta sumarið sem er ánægjulegt,“ segir Þröstur og bendir á að frekari fregna sé að vænta þegar öll kurl komi til grafar. Af vef LV, angling.is má þó sjá á þessari stundu að Jökla endaði með metveiði eins og fram hefur komið í fréttum, 870 laxa á móti 815 sumarið 2015. Gaman væri að sjá hvað svæði þetta gæti skilað miklu ef ekki væri að dynja á svæðinu þessi endalausu árlegu yfirföll jökulaursins. Eflaust færi hún létt í fjögurra stafa tölurnar og satðfest er fyrir mörgum misserum, að laxagöngurnar snúast æ minna um gönguseiðasleppingar og í vaxandi mæli um smáseiðasleppingar og náttúrulega hrygningu á efri svæðum árinnar.

Talandi um engar niðursveiflur, Breiðdalsá skilaði 136 löxum á móti 76 í fyrra, en þar var afar lítið veitt á liðnu sumri. Hrúta er með 373 laxa 2020 sem er nokkuð gott miðað við almenna hnignun í ám á Norðurlandi, en áin var með 401 lax í fyrra. Munar 24 löxum sem er varla marktækt.