VoV var í vísiteringum í vikunni. Mynd -gg.

VoV gerði sér nýverið far um að kíkja á tvær minna þekktar laxveiðiár í nágrenni Reykjavíkur. Ár sem flogið hafa langt undir adarnum til fjölda ára, en afa reynst okkur hafa ágæta kosti. Þetta eru Leirá í Melasveit og Brynjudalsá í Hvalfirði.

VoV vísiteraði báðar nú undir lok vertíðarinnar. Fyrst var það Brynjan. Forðum vissu menn lítt um hana annað en að neðst í henni er Bárðarfoss sem hafði það orð á sér að óprúttnir aðilar færu þangað í skjóli myrkurs og hentu dínamít í hylinn. Seinna, þegar sá kvittur vék, gerðist það oftar en einu sinni að veiðimenn komu að Bárðarfossi til að veiða og hittu þar fyrr misstóra hópa ungra karlsteggja sem gerðu sér að leik að hoppa ofan í hylinn ofan af klettunum. Það er laxastigi í Bárðarfossi og annað stuttu ofar í bröttum fossi. En þar fyrir innan eru all nokkrir kílómetrar, áin veiðileg og umhverfið undursamlegt.

Brynjudalsá
Smálax úr Brynjudalsá. Mynd -gg.

VoV voru svo heppnir að það hafði rignt og það var komið vatn. Ansi mikið vatn meira að segja. Við fórum víða, ekki síst á svæðinu frá brú frammi í dal og niður að veiðihúsinu sem er í hlíðinni nærri efri fossinum. Á þeirri leið eru bakkar og eyrar og víða veiðilegt. Þar urðum við varir við laxa hér og þar, lönduðum einum smálaxi og misstum rígvæna hrygnu, sem var stærri en þeir laxar sem skráðir höfðu verið í veiðibók. Þeir voru flestir smálaxar, en þeir stærri voru frá 70 og upp í 76 cm. Umrædd hrygna var nær 90 cm.

Hreggnasi er leigutaki Brynjudalsár og Haraldur Eiríksson sölustjóri þar sagði okkur að svæðið frá brú og upp í efsta foss væri mikið ævintýraland. Við gengum upp í efsta foss og á leiðinni var ákvörðun tekin að kasta ekki flugunni. Umhverfið þar efra er slíkt að augun og athyglin eiga ekki að vera á ánni. Við eigum það eftir að ganga frá bílasstæði við skógræktina og niður að brú. Undir brúnni lágu all margir laxar sem voru ekki til í að taka.

Og hvernig hefur svo sumarið verið? Miðað við endalausa þurrka verður vertíðin að teljast góð, en í bók voru milli 80 og 90 laxar og sjóbirtingar á stangli.

                                                    Leirá

Leirá er kannski meiri sjóbirtingsveiðiá, en lax gengur í hana líka. Hún er vatnslítil eins og Brynjan og að sama skapi veik fyrir löngum þurrkum. Þess vegna var hún lengi í gang á þessari vertíð.

Leirá
Nokkuð brattur foss í ofanverðri Leirá. Hann er fiskgengur og veiðist bæði lax og sjóbirtingur þarna fyrir ofan.

En þegar fór að rigna í haust tók hún við sér. VoV vísiteraði um miðja vikuna og mátti sjá nokkra tugi sjóbirtinga á síðum veiðibókarinnar. Lítið af laxi samt, aðeins fjórir, en VoV fann laxa á nokkrum stöðum. Settum m.a. í tvo á miðsvæðinu, annan í veiðistað 15 (sem heitir því eðalnafni Kúbudráttur) og hinn í ómerktum stað rétt þar fyrir ofan. Ekki tókst þó að innbyrða umrædda laxa. Sjóbirtingurinn er liðflestur í hyljum sem kenndir eru við tölustafinn 4, hyljir 4 og 4A og eru neðan við Þjóðveg 1. Þar er talsvert af honum, en það er hægt að hitta a birtinga um alla á. VoV lenti einmitt í því, setti í birtinga við brúna frammi í dalnum og á tveimur stöðum á miðsvæðinu, auk 4 og 4A. Undir lokið kom mögnuð stund í 4A þar sem VoV setti í fimm birtinga, en missti alla! Svona er þetta stundum.

Birtingurinn sem núna flykkist í Leirá er fremur smár þó að vænni séu líka. Er það athyglisvert þar sem mun fleiri stórir fiskar komu fram í vorveiðinni. Það er Iceland Outfitters sem leigir Leirá,en við munum segja nánar frá þessum litlu perlum á síðum áskriftarsvæðis okkar veidislod.is á næstunni.