Jónas Kristinn Jóhannsson með glæsilegan urriða af Kárastaðasvæðinu í Þingvallavatni.

Fyrr í dag greindum við frá afrekum CezaryFijakowski í Þjóðgarðinum á Þingvöllum í dag. Á sama tíma voru menn einnig að setja í landa stórfiskum bæði á Kárastöðum og í Villlingavatnsárósi. Eflaust víðar ef skoðað væri nánar, enda er nú urriði að taka fluguna um allt vatn.

Jónas Kristinn Jóhannsson með einn rígvænan af Kárastaðasvæðinu í dag.

Jónas Kristinn Jóhannsson var t.d. á veiðisvæði Kárastaða og hann setti í og landaði nokkrum rígvænum urriðum eins og sjá má á myndunum sem okkur barst með leyfi um birtingu. Þetta eru engir smá fiskar. Kárastaðir eru á snærum Fish Partner og sama má segja um Villingavatnsárósinn, en þar var veiðiklúbburinn Villlimenn að veiðum í dag.

„Blettatígurinn“ sem að Villimenn telja að hafi komið úr Villingavatni. Myndin er fengin af FB síðu Fish Partner.

Á FB síðu Fish Partner mátti sjá færslu frá Villimönnum þar sem þeir sýndu stóran urriða sem var frekar óvenjulegur á litinn miðað við það sem menn eiga að venjast í Þingvallavatni, enda töldu þeir uppruna urriðans annan. Í færslunni á FB síðu Fish Partner var þetta haft eftir drengjunum: „Við  fengum þennan fallega blettatígur fyrir stuttu, grunar að þessi eigi heima í Villingavatni en hafi ákveðið að skella sér í smá ferðalag þegar allt var í flóðum hérna um daginn.“