Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Menn velta vöngum yfir gæðum þessa sumars og bera gjarnan saman við hörmungina í fyrra. Vissulega voru nokkrar ár góðar og aðrar með mun betri útkomu heldur en í fyrra, sérstaklega vestanlands, En það þarf alltaf að taka með veiðina í „hafbeitaránum“ og þeirri staðreynd að allt að 20-30 prósent af veiddum laxi veiðist aftur ef honum er sleppt.

Miðað við 7.október, þegar angling.is birti síðast tölur, þá höfðu hinar hreinræktuðu „hafbeitarár“, Eystri Rangá, Ytri Rangá, Affall og Þverá í Fljótshlíð gefið alls 13.331 lax. Í fyrra skiluðu sömu ár 5.189 löxum. Þannig að þessar tölur hafa rífandi áhrif á heildartölur, jafnvel án þess að taka með endurveiði slepptra laxa. Þessi gríðarlega veiði fyrir austan fjall ber snilld Einars Lúðvíkssonar gott vitni, enda hefur hann séð um sleppingar hafbeitarseiðanna og er orðinn ansi þéttur af reynsu í þeim efnum, ásamt með föður sínum Lúðvík. Langt síðan að þeir byrjuðu. En nú nýtur krafta þeirra ekki lengur og verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður. Sagt hefur verið í haust að seiðin hans Einars hafi farið seinna úr ánum en náttúrulegu seiðin rúnt um landið. Um það verður ekkert fullyrt á þessu stigi. En niðurstða þessara punkta er: Var þetta sumar eitthvað betra en 2019 þrátt fyrir nokkrar ár með bætingu? Eða er Einar að halda þessu uppi í einhverjum skikkanlegum hæðum með snilld sinni í sleppingum?