Austurá, Sporðaköst
Við tökur s.l. sumar, laxi sleppt neðan við Kambsfoss í Austurá í Miðfirði.

Veiða og sleppa fyrirkomulagið hefur alltaf verið umdeilt og ekki síst allra síðustu árin hvað varðar laxveiðina. Laxveiðiár þar sem öllu hefur verið sleppt um árabil á niðurleið. Varla deilir þó neinn lengur um það hvernig hófleg nýting eða algerar sleppingar á sjóbirtingi styrkja stofna. En Ásgeir Arnar Ásmundsson umsjónarmaður Vatnsár og Heiðarvatns í Heiðardal ofan Mýrdals er með ákveðnar skoðanir sem vert er að gefa gaum.

Í stuttu máli sagði Ásgeir í samtali við VoV að eitt sem þyrfti að yfirfara vandlega væri meðferðin á þeim fiskum sem annað hvort skylt væri að sleppa eða til stæði að sleppa, hann hefði nýlega og oft áður séð slæm dæmi um slíkt, bæði á sínum slóðum í Heiðardal og annars staðar.

„Ég geri ákall til Landssambands Veiðifélaga  og Fiskistofu að gera fræðslumyndband um veiða og sleppa. Þ.e.a.s um meðferð fisks við veiða-sleppa. Þetta á ekki bara við um þá fiska sem landað er, heldur einnig þeir sem veiðimenn átta sig á að séu tæpir að nást að landi.  Ég hef séð og horft upp á grátlega meðferð á vænum fiskum sem eru orðnir þroskaðir en eiga samt eftir nokkur góð ár í hrygningu ef að almennilega er með þá farið.

Almennt séð þá kunna margir ekkert að ganga um auðlindina. Líkt og þeir sem ég hef nýlega staðið að þessu.  Í Þýskalandi þurfa menn að fara á námskeið eins og veiðikortið hér fyrir skotveiði. Þú þarft af hafa skírteini um að þú hafir lokið námskeiðinu til að fá að kaupa leyfi. Veit ekki hvernig það virkar með útlendinga sem koma að skjóta hér. En hér á landi vantar mikið uppá þessa þekkingu hjá allt of mörgum,“ sagði Ásgeir.