Aðalsteinn Pétursson með fallega hrygnu úr Guðnabakkastrengjum í Þverá í morgun.

Blanda og Þverá voru opnaðar í morgun og á báðum vígstöðvum var ísköld stíf norðanátt til mikilla trafala. Þegar það er tekið með í reikninginn þá má segja að fjórir úr Blöndu og þrír úr Þverá hafi verið bara nokkuð góð byrjun.

Reynir Sigmundsson með vörpulega hrygnu úr Blöndu í morgun.

Árni Baldursson er að vísu ekki á vettvangi í Blöndu en var búinn að vera í stöðugu sambandi við félaga sína sem þar eru að opna. Árni sagði að kuldi og norðaustanrok stæði veiðum fyrir þrifum, en samt höfðu fjórir komið á land. „Það er erfitt fyrir menn að átta sig á hvort að það er eitthvert magn af fiski, en þó lofar það góðu að það hafa þegar tíu laxar gengið um teljarann í stiganum í Ennisflúðum.“

Andrés Eyjólfsson með fallega hrygnu úr Guðnabakkastrengjum í morgun.

Hjá Ingólfi Ásgeirssyni hjá Störum fengum við þær fréttir að þrír hefðu komið á morgunvaktinni í Þverá. Þann fyrsta veiddi fjölmiðlakonan Inga Lind Karlsdóttir í veiðistaðnum Örnólfi sem er næsti staður neðan við hið víðfræga Skiptafljót. Gott dæmi þar á ferð um eðli Þverár í vorveiði, laxinn getur verið hvar sem er því að áin er fyrirstöðulaus. Síðan fengu leiðsögumennirnir kunnu Aðalsteinn Pétursson og Andrés Eyjólfsson frá Síðumúla tvo í Guðnabakkastrengjum.