Hraunsfjörður, sjóbleikja
Veitt af hraunkantinum í Hraunsfirði.

Ef undan eru skilin ákveðin svæði í Þingvallavatni þá hefur vatnaveiðin farið rólega af stað þrátt fyrir mildan vetur. Kaldur apríl er þar eflaust aðal orsökin. En Hransfjörðurinn er dottinn í gang!

Hraunsfjörður, sjóbleikja , Bjarni Júlíusson
Bjarni Júlíusson með fallega sjóbleikju úr Hraunsfirðinum. Allar myndirnar eru frá honum komnar.
Hraunsfjörður, sjóbleikja
„Glitflóin“ góða sem gefur vel í Hraunsfirði á vorin.

Bjarni Júlíusson fyrrum formaður SVFR leggur þangað reglulega leið sína á vorin og hann skrifaði fyrir okkur dálítinn pistil um gang mála: „Vatnaveiðin hefur verið róleg það sem af er vori, enda vorið verið fremur kalt. Ég hef skotist í Hraunsfjörðinn í nokkur skipti án verulegs árangurs. Um miðjan apríl var prófað í 2°C hita og þá fékk ég ekki högg. Um síðustu helgi renndi ég aftur og þá var komið líf, fallegar og vel haldnar bleikjur 40 – 50cm voru að gefa sig. Á föstudagskvöldið var farið aftur. Því miður þá hafði kólnað verulega og svartaþoka fyrir svæðinu. Hitinn hafði fallið úr 14°C í 6°C í þokunni. En það kom ekki að sök. Bleikjan var að vaka og skvetta sér, skammt frá landi. Boltafiskar greinilega.

Hraunsfjörður, sjóbleikja
„Unglingurinn“ í hópnum með flotta bleikju.

Ég sá ekki í hvaða æti hún var þarna í vatnsskorpunni. En í ljósi þess að fiskar sem ég var að veiða þarna vikunni áður, þá veðjaði ég á marflóareftirlíkingar og það brást ekki. Falleg bleikja féll fyrir Glitfló en þessi fluga hefur alltaf gefið vel á vorin í Hraunsfirðinum. Unglingurinn í hópnum setti í fallegan fisk á Peacock. Þarna var mikið líf og mun bara aukast þegar hlýnar. Þegar farið var innan í fiskana, voru þeir stútfullir af marfló, þessari gömlu góðu, grágrænu. Alveg ljóst að þarna verður reynt aftur um helgina.“