Matthías með tröllið!

Matthías Þór Hákonarson, leigutaki Mýrarkvíslar greindi frá því á FB síðu sinni að áin hefði skilað sér sínum stærsta laxi á ferlinum á lokadeginum. Um var að ræða 103 cm risahæng. En spurning hvort að Matthías hafi landað sama laxi fyrr um sumarið?

Matthías sagði okkur nefnilega að hann hefði landað 99 cm hæng úr sama hyl fyrr í sumar. Hann sagðist hafa landað svo mörgum 99 cm löxum um daganna að hann hefði verið farinn að efast um að meterinn næðist. En þá kom þessi drjóli.

En hvers vegna hvarflar að VoV að þetta sé sami laxinn og Matthías landaði úr sama hyl og var 99 cm? Auðvitað er virkilega mikill möguleiki að þetta sé alls ekki sami laxinn, en það er hins vegar staðreynd að laxar af þessari stærð, 99 til 103 cm eru alls ekki algengir. En það er einnig staðreynd að hængar léttast og lengjast á sama tíma og hrygnur þyngjast út af vaxandi hrognabyrði. Hængarnir lengjast á þann hátt að svo mikill þroski kemur í hausinn og kjaftinn að laxinn getur lengst um nokkra sentimetra.

Tilefni þessara vangaveltna er saga sem Jóhann Hafnfjörð Rafnsson, umsjónarmaður við Víðidalsá sagði okkur fyrir nokkrum árum. Hann var að veiðum með erlendum skjólstæðingi og sá útlendi setti í stóran lax. Sá var í minningunni 98 eða 99 cm. Það var eitthvað „kennileyti“ á laxinum sem gerði það að verkum að hann skar sig úr og þekktist. Seint um haustið var Jóhann aftur á sömu slóðum og stór lax hljóm í fluguna. Þessi hængur reyndist 104 cm, ef við munum rétt, Jóhann kannski sendir okkur línu til leiðréttingar. En aðalmálið er, að vegna þess að hængurinn var auðþekkjanlegur, þá lá ljóst fyrir að þetta var sami laxinn, þó svo að hann væri öllum þessum sentimetrum lengri. Kjafturinn algerlega ógurlegur og ekkert líkur því sem var fyrr um sumarið! Þannig að Matthías? Hvað heldurðu?